Donald Trump, fyrrum forseti, hafði vonast til að Cheney myndi tapa en það hefur farið mjög illa í hann að hún hefur verið gagnrýnin á hann og embættisfærslur hans. Hún hefur einnig lýst því yfir að það sé rangt hjá Trump að rangt hafi verið haft við í forsetakosningunum 2020. Hann hafi einfaldlega tapað fyrir Joe Biden.
Þegar fyrstu tölur úr forvalinu birtust í nótt að íslenskum tíma var Cheney með 30,3% atkvæða en andstæðingur hennar Harriet Hageman, með 65,1%. Hageman er dygg stuðningskona Trump. CNN skýrir frá þessu.
Enginn vafi leikur á að Cheney er að gjalda fyrir andstöðu sína við Trump en hún hefur meðal annars sagt að það sé „sjúkt“ að halda því fram að svindlað hafi verið í kosningunum en Trump hefur ítrekað haldið því fram án þess að geta lagt fram nokkrar sannanir því til stuðnings. Einnig hafa dómstólar vísað öllum slíkum málatilbúnaði á bug.
Í kjölfar ummæla hennar og greinaskrifa um málið var henni vikið úr forystu flokksins í fulltrúadeildinni. „Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja að þessi fyrrum forseti muni aldrei nokkru sinni aftur koma nálægt forsetaskrifstofunni,“ sagði Cheney í kjölfar brottrekstursins.
Því svaraði Trump með að segja: „Liz Cheney er bitur og hræðileg manneskja.“