Þetta sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið.
Hann sagðist telja að aðkoma ríkisins að kjarasamningum hafi færst í vöxt síðustu 30 ár og hafi líklega náð hámarki við gerð lífskjarasamninganna. Þar hafi ríkið lagt fram lista yfir tugi atriða sem áttu að koma til skoðunar eða framkvæmdar á samningstímabilinu. „Það sýnir að þetta er vandmeðfarið. Þess vegna tel ég að það sé lykilatriði að aðilar vinnumarkaðarins fái að ganga frá kjarasamningi án þess að ríkið stígi um of inn í þá aðgerð,“ sagði hann.
Hann sagðist óska eftir vinnufriði við gerð kjarasamninga og að ASÍ geti náð saman um þau meginverkefni sem snúa að gerð kjarasamninga. ASÍ fari ekki með samningsumboð fyrir aðildarfélög sín í kjaraviðræðunum að þessu sinni. „Hins vegar eru þau mikilvæg, sér í lagi þegar það kemur að þríhliða samtali við stjórnvöld sem ég geri ráð fyrir að muni eiga sér stað á lokametrum kjarasamninganna þegar þeir verða undirritaðir. Við megum aldrei gleyma, þrátt fyrir allan bölmóðinn, að kjarasamningar eru alltaf undirritaðir að lokum,“ sagði hann.