Fréttablaðið skýrir frá þessu og segir að utanríkisráðuneytið hafi óskað eftir að langur viðlegukantur verði reistur norðan megin í Finnafirði í Langanesbyggð. Hann er ætlaður fyrir NATO. Yrði kanturinn við bæinn Gunnólfsvík.
Tilgangurinn með auknum umsvifum er að hægt verði að birgja skip frá NATO upp þarna og hvíla áhafnir. Til greina kemur að aðstaða verði fyrir birgðaskip frá NATO. Einnig hefur verið rætt um að Landhelgisgæslan fái aðstöðu.
Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir að engin skrifleg gögn séu til um þessar þreifingar en sveitarstjórn Langanesbyggðar hafi borist óformlegt erindi vegna málsins. Björn S. Lárusson, nýráðinn sveitarstjóri Langanesbyggðar, sagðist ekki geta tjáð sig um málið og engin svör fengust frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurnum.