fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Metnaðarleysi ríkisvaldsins í málefnum íslenskunnar

Eyjan
Sunnudaginn 10. júlí 2022 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á vordögum átti ég ágætt spjall við belgískan kunningja minn sem stundar doktorsnám í tölvunarfræði hér á landi. Honum var mikið niðri fyrir þegar talið barst að íslenskukennslu fyrir útlendinga og sagði (eitthvað á þessa leið í þýðingu minni):
„Ég botna ekkert í ykkur Íslendingum. Þið bjóðið fjölda útlendinga að stunda hér nám og verjið til þess miklum fjármunum skattgreiðenda. Aftur á móti kennið þið okkur ekki íslensku — alla vega hefur mér reynst ómögulegt að finna hentugt nám í tungumálinu — því það þarf að kunna íslensku til að verða gjaldgengur í þessu samfélagi, eðlilega. Þetta hefur það í för með sér að þetta fólk sem þið menntið með ærnum tilkostnaði sest ekki hérna að heldur flyst aftur úr landi.“

Mér varð hugsað til þessara orða þegar eitt nýju ráðuneytanna (með löngu og óþjálu nafni) auglýsti 27. júní síðastliðinn eftir sérfræðingi sem hefði „gott vald á íslensku og/eða ensku“. Í kjölfarið var bent á að í lögum væri skýrt kveðið á um að íslenska væri opinbert mál stjórnvalda og skyldi notað í störfum þeirra. Umrædd starfsauglýsing bryti því gegn lögum. Ráðherrann vísaði þessu á bug og sagði að leitað væri að tölfræðingi sem ynni bara með tölur, ekki texta.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslensku, benti þá á að miðað við starfslýsinguna væri ómögulegt að sinna umræddu starfi án góðrar kunnáttu í íslensku ella yrði stjórnsýsla ráðuneytisins að fara fram á ensku. Eiríkur minnti á af þessu tilefni að íslenskan ætti í stöðugri varnarbaráttu:

„Ef við gerum engar kröfur um íslenskukunnáttu í neinum störfum verður íslenskan óhjákvæmilega alltaf undir vegna þess að enskan verður vinnumál að meira eða minna leyti á öllum vinnustöðum þar sem eitthvert starfsfólk kann ekki íslensku. Til lengri tíma er hætta á að það myndi veikja íslenskuna til mikilla muna, skerða umdæmi hennar og jafnvel leiða til þess að hún yrði fyrst og fremst notuð í einföldum samskiptum og inni á heimilum.“

Eðlilega ekki gott að lög séu brotin

Eiríkur hefur ítrekað hvatt til umburðarlyndis gagnvart ófullkominni íslensku enda hafi innflytjendum fjölgað hratt og samhliða hefur hann prédikað þolinmæði í garð þeirra sem eru að læra málið. Þá hefur hann bent á að ekki sé einfalt mál að halda því til streitu að íslenska sé nothæf og notuð á öllum sviðum á sama tíma og þess sé gætt að íslenskukunnátta sé ekki notuð til mismuna fólki.
Líklega væri ein leið í þessu efni að gera kröfur um mismikla kunnáttu í tungumálinu. Þeim sem stunda einföld afgreiðslustörf nægir að geta átt í hversdagslegum samskiptum á íslensku og kunna þann orðaforða sem þörf er á hverju sinni. En Eiríkur segir líka
„ekki gott ef farið er á svig við lög í þessu efni vegna þess að það býður þeirri hættu heim að enskan gangi á lagið, ef svo má segja. Það er miklu betra að draga úr kröfum um íslenskukunnáttu, ef það er talið rétt eða nauðsynlegt, og hafa þá lög og reglur sem hægt er að standa við. En það þolir enga bið að taka stöðu ensku í íslensku málsamfélagi til umræðu og móta um hana stefnu.“

Andvaraleysi Íslendinga

Góður vinur minn er frá Graubünden-kantónu í Sviss og hefur retórómönsku að móðurmáli. Hún er nú aðeins móðurmál um 45 þúsund manns — þeir eru sumsé færri en Færeyingar og innan við 1% svissnesku þjóðarinnar. Retórómönum fer fækkandi og tunga þeirra mun áfram fara halloka. Í hvert sinn sem Retóramani gengur í hjúskap með einhverjum þýsku-, frönsku- eða ítölskumælandi Svisslendingi er skipt yfir í stórmálið. Samt sem áður hefur margt verið aðhafst til að varðveita retórómönsku og hún til að mynda gerð að opinberu tungumáli sem ekki var einfalt því Retórómanar notast við alls fimm ritaðar mállýskur.

Sömu sögu er að segja af öðrum minnihlutamálum í Evrópu, flest þeirra eru á undanhaldi, þau eru mörg hver útbreiddari í dreifbýli en þéttbýli og mállýskumunur oft mikill. Það að íslenskan sé opinbert tungumál hér og töluð í verkskiptu borgarsamfélagi, sé án mállýskumunar og eina ríkismálið gefur okkur miklu betri færi til að varðveita hana en ella. Staða íslenskunnar að þessu leyti er til muna betri en flestra minnihlutamála álfunnar en til að íslenskan fái lifað áfram, vaxað og dafnað þarf metnað fyrir hönd tungumálsins sem verulega hefur skort á.
Í frönskumælandi hluta Kanada gildir ströng löggjöf um verndun franskrar tungu. Fólk sem sest að í Québec á aðeins rétt á að eiga samskipti við hið opinbera á öðru tungumáli en frönsku í sex mánuði eftir að það flyst þangað. Hér á landi eru þeir aftur á móti til sem heimta að menn fái að gangast undir ökupróf á ensku og í viðtali í Stundinni á dögunum kallaði fyrrverandi formaður Ökukennarafélags Íslands það „rasisma“ (þ.e. kynþáttahyggju eða kynþáttahatur) að menn fengju ekki að þreyta prófin á ensku eða hafa meðferðis túlk. Svona þvæla tekur vitaskuld engu tali en viðhorf þessu lík er samt sem áður að finna hjá málsmetandi mönnum.

Í Québec eiga líka allir rétt á þjónustu á frönsku á veitingahúsum, í verslunum og á öðrum opinberum stöðum en sérstök stofnun sér um að framfylgja þessu (fr. Office québécois de la langue française). Hún tekur á móti kvörtunum og fulltrúar hennar fara í vettfangsferðir.
Ég er ekki viss um að þetta sé fyllilega til eftirbreytni fyrir Íslendinga en það er vitaskuld óboðlegt að víða sé ekki veitt þjónusta á íslensku í íslenskum verslunum og veitingahúsum. Ég er undrandi á því andvaraleysi sem ríkir gagnvart þessu. Auðvitað er ekki við hina erlendu starfsmenn að sakast — atvinnurekandi á að hafa metnað til að bjóða viðskiptavinum sínum upp á þjónustu á móðurmálinu og þá eftir atvikum tryggja að starfsfólkið fái fræðslu í íslensku. Á móti kemur, líkt og Eiríkur Rögnvaldsson hefur ítrekað bent á, að þá mættum við sem höfum íslensku að móðurmáli gjarnan sýna innflytjendum meira umburðarlyndi og þolinmæði þegar þeir tala íslensku sem vitaskuld verður ekki lýtalaus í einu vetfangi.

Ljótt fordæmi ríkisvaldsins

Ef við höldum okkur við kanadíska samanburðinn þá verða öll skilti í Québec að hafa franskan texta sem á að vera meira áberandi og stærri en enska þýðingin. Frá þessu eru aðeins minniháttar undantekningar, líkt og auglýsingar sem beint er sérstaklega að enskumælandi minnihlutanum í Québec. Það yrði ólíkt vinalegra um að litast á ýmsum helstu ferðamannastöðum, eins og miðbæ Reykjavíkur, ef þessi regla væri við lýði hér.

Í þessu efni hefur ríkisvaldið sýnt ljótt fordæmi. Í Leifsstöð eru leiðbeiningar fyrst á ensku og svo stundum á íslensku. Íslenska ríkið rekur verslanir í flugstöðinni þar sem birtar eru flennistórar auglýsingar á ensku og komufarþegar hvattir til að kaupa vínföng þar svo þeir geti sparað sér opinber gjöld. (Því má raunar velta upp hvort íslenska ríkið sé ekki með þessu að brjóta lög sem banna áfengisauglýsingar. Og hvernig samrýmist það lýðheilsustefnu stjórnvalda að hvetja fólk til áfengiskaupa?)

Allt um það þá eru þjóðtungurnar ætíð í forgrunni á skiltum á alþjóðaflugvöllum hinna Norðurlandanna — líka í Helsingfors þar sem mikill fjöldi farþega hefur viðkomu í Asíuflugi. Þar eru allar áletranir fyrst á finnsku og sænsku, þá ensku og af og til einnig á kínversku og japönsku. Þetta er líka reglan á stöku stað innan hins enskumælandi heims en á flugvellinum í Dýflinni á Írlandi eru áletranir á gelísku ofan við enskar áletranir og eru þeir þó ekki ýkja margir sem hafa gelísku að móðurmáli en aðeins um 70 þúsund manns tala hana dags daglega (utan skólastofunnar). Hér er engu að síður um að ræða skýra yfirlýsingu þarlendra stjórnvalda um hversu mikils þau meti hina fornu þjóðtungu sem þó er á fallanda fæti.

Metnaðarleysi ríkisvaldsins hér í málefnum tungumálsins birtist víðar. Hjá Ríkisútvarpinu er málfar ekki nærri alltaf vandað. Þar hendir jafnvel að gerðir séu þættir eftir handriti sem auðheyrilega er ekki prófarkalesið svo dæmi sé tekið og framsögn stundum verulega áfátt. Hér má aftur nefna það sem ég kom inn á að framan: við hljótum að gera mjög mismiklar kröfur til kunáttu í tungumálinu en ef einhvers staðar ætti að leggja mikla áherslu á málvöndun þá væri það á Ríkisútvarpinu.

Látum af undirlægjuhætti

Undirlægjuháttur gagnvart ensku grefur undan stöðu íslenskunnar. Þegar við ferðumst um önnur lönd ætlumst við auðvitað ekki til þess að allar áletranir séu á ensku og víða í Evrópu er ómögulegt að bjarga sér á ensku. Mín reynsla er sú að ferðamenn sem hingað koma hafa ekki minni áhuga á þjóðinni, sögu hennar og tungu en landinu. Þegar Flugfélag Íslands breytti nafni sínu orti Þórarinn Eldjárn:

Flugfélag Íslands frægt og þekkt
forðum tíð í prakt og mekt
ónefni fékk ömurlegt,
Air Iceland Connect.

Þeim sem tóku ákvörðun um nýtt nafn Flugfélagsins var kannski ókunnugt um að erlendis eru töluð fleiri tungumál en enska og að minnsta kosti hundrað milljónir Evrópumanna vita að orðið Flug hefur eitthvað með flug að gera. Íslenskan á sér miklu meiri skyldleika við önnur germönsk mál en ensku og sitthvað í íslensku sem margir útlendingar skilja.

Hér mætti tæpa á ótalmörgu fleiru en við blasir að margvíslegra aðgerða er þörf, til að mynda er brýnt að stórauka íslenskukennslu fyrir útlendinga svo að sem allra flestir þeirra sem kjósa að setjast hér að verði hlutgengir í íslensku samfélagi. Og miklu máli skiptir að ráðamenn sýni meiri metnað fyrir hönd tungumálsins — ekki bara í ræðum á tyllidögum heldur í reynd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar

Björn Jón skrifar: Grænland er land framtíðarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni

Svarthöfði skrifar: Enginn er spámaður í eigin föðurlandi – Dagur gæti haft tromp uppi í erminni
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótauppgjör
EyjanFastir pennar
21.12.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing
EyjanFastir pennar
20.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn

Steinunn Ólína skrifar: Litla saklausa jólabarn
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ýmislegt stórt mun gerast