Kristrún Frostadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, kom sem stormsveipur inn á hið pólitíska svið fyrir síðustu Alþingiskosningar og frammistaða hennar var með slíkum hætti að umsvifalaust var hún orðin vonarstjarna flokksins.
Hægri menn eiga vart roð í hana í umræðum um efnahagsmál og hefur því hreinlega verið haldið fram að í Valhöll, óttist menn Kristrúnu mjög. Það er óneitanlega músík í eyru allra jafnaðarmanna.
Öllu verra er þó að óttinn við frama Kristrúnar virðist ekki bara innan raða pólitískra andstæðinga, hann er líka til staðar innan Samfylkingarinnar sjálfar þar sem að Kristrún hefur á skömmum tíma svo gott sem jarðsett drauma reyndari stjórnmálamanna um leiðtogahlutverk innan flokksins.
Þessi breytta sviðsmynd innan Samfylkingarinnar hefur valdið árekstrum og haft mikil áhrif á móralinn innan þingflokksins og undanfarið hefur hann rétt svo slefað yfir frostmarkið. Þannig hefur Orðið heimildir fyrir því að vinnustaðasálfræðingur hafi verið kallaður út til að reyna að laga samskiptin, sérstaklega á milli Kristrúnar og Oddnýjar Harðardóttur, þingkonu og fyrrverandi formanns flokksins. Sú vinna bar þó ekki tilætlaðan árangur.
Kristrún er afar metnaðarfull og hefur undanfarna mánuði haldið opna og velsótta fundi um allt land þar sem hún ræðir við grasrót Samfylkingarinnar. Vakti það nokkra athygli á kjördæmaviku Alþingis að þingflokkur Samfylkingarinnar hélt saman í hringferð um landið en Kristrún kaus að halda áfram með fundi sína einsömul og var hvergi sjáanleg. Fór í raun öfugan hring á móti þingflokknum.
Samfylkingarfólki hefur lengi dreymt um að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, taki við af Loga Einarssyni sem formaður flokksins og helli sér út í landsmálin. Herma heimildir Orðsins að Dagur sé ekki afhuga því að láta af því verða í næstu kosningum og ljúka þar með farsælum ferli á sveitarstjórnarstiginu.
Síðan Kristrún stökk fram á sjónarsviðið hafa flokksbundir séð hana fyrir sér sem kjörin varaformann með Degi og talið flokkinn ósigrandi með þau tvö í stafni. Margt bendir til þess að Kristrún sé sama sinnis nema að hún telji best að hlutverkum hennar Dags sé víxlað.