fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Leiðtogar Framsóknar í vandræðum eftir uppákomur á Búnaðarþingi – Formaður BÍ rekinn burt og rasísk ummæli sögð höfð uppi

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 3. apríl 2022 15:30

Leiðtogar Framsóknarflokksins - Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja D. Alfreðsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samskipti Bændasamtakanna og Framsóknarflokksins, sem alla jafna eru mikil og góð, eru nú sögð hafa súrnað verulega eftir tvær uppákomur á Búnaðarþingi sem haldið var nú í lok vikunnar.

Munu tvö atvik þar sem tveir ráðherrar Framsóknarflokksins léku lykilhlutverk hafa orðið til þess að að minnsta kosti nokkrir starfsmenn samtakanna hyggjast eða hafa þegar sagt sig úr Framsóknarflokknum. Viðmælendur DV tala um að fullkominn trúnaðarbrestur hafi átt sér stað og mikið þurfi til að laga samskiptin milli stjórnenda BÍ og leiðtoga Framsóknarflokksins.

Niðrandi ummæli um húðlit

Búnaðarþing er haldið árlega og er það í senn aðalfundur samtakanna sem og nokkurskonar uppskeruhátíð og árshátíð. Þinginu fylgir alla jafna mikið fjör og alls kyns húllumhæ þar sem þingmenn, embættismenn, bændur og starfsmenn Bændasamtakanna koma saman. Ein hefð á Búnaðarþingi er sú að stjórnmálaflokkarnir bjóða þátttakendum í kvöldverð. Stilla þá flokkarnir, hver fyrir sig, upp borðum þar sem þeir taka á móti þingmönnum Búnaðarþings.

Það var einmitt á þeirri samkomu sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra er sagður hafa haft uppi niðrandi ummæli um framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, Vigdísi Häsler. Munu starfsmenn samtakanna ásamt framkvæmdastjóranum hafa verið á gangi á milli borða stjórnmálaflokkana þegar Sigurður Ingi lét hin niðrandi orð falla sem snerust um húðlit Vigdísar en framkvæmdastýran á ættir að rekja til Indónesíu. Á Sigurður að hafa vísað til Vigdísar sem „hinnar svörtu“.

Vigdís Häsler Sveinsdóttir

Á þessari sömu samkomu mun þá, samkvæmt öruggum heimildum Orðsins, hafa soðið upp úr á milli Gunnars Þorgeirssonar, formanns Bændasamtakanna, og Lilju Daggar Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins. Samkvæmt frásögn heimildarmanna Orðsins mun Lilja hafa brugðist ókvæða við þegar Gunnar ætlaði að heilsa upp á Framsóknarborðið og rekið hann á brott svo eftir var tekið.

Gunnar Þorgeirsson, formaður BÍ

Samkvæmt heimildum Orðsins hefur gremju gætt innan Framsóknar með stöðu mála innan Bændasamtakanna. Mun gremjan að einhverju leyti snúast um að Gunnar formaður og Vigdís séu Sjálfstæðismenn. Vigdís er til að mynda fyrrum aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar ráðherra Sjálfstæðisflokksins árið 2017. Þá fer Svandís Svavarsdóttir með landbúnaðarmál í núverandi ríkisstjórn. Svandís er í Vinstri grænum og því, rétt eins og Sjálfstæðismennirnir í brú Bændasamtakanna, ekki Framsóknarmaður. Reyndar er ekki að sjá að þeirrar sömu gremju gæti innan samtakanna, en Gunnar formaður var sjálfkjörinn á áðurnefndu og nýafstöðnu Búnaðarþingi. Þá er samkvæmt heimildum Orðsins almenn ánægja með störf Vigdísar sem framkvæmdastjóra.

Uppfært kl.16.30: Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, þvertekur fyrir að ráðherrann hafi viðhaft rasísk ummæli. „Þetta er algjört bull,“ segir Ingveldur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK