Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur skipað Ásdísi Höllu Bragadóttur í embætti ráðuneytisstjóra í háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.
Alls bárust átta umsóknir um embættið sem var auglýst þann 3. febrúar sl. en umsóknarfrestur rann út 28. febrúar. Hæfnisnefnd mat tvo umsækjendur hæfasta til þess að gegna embættinu. Ráðherra boðaði í framhaldi viðkomandi til viðtals og var það mat ráðherra að Ásdís Halla væri hæfust umsækjenda til að taka við embætti ráðuneytisstjóra. Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, var settur ráðuneytisstjóri til þess að annast skipunarferlið.
Ásdís Halla lauk meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard háskóla árið 2000 og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Árið 1990 lauk hún BA námi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.
Ásdís Halla hefur fjölþætta reynslu úr bæði stjórnsýslu og atvinnulífi. Hún var meðal annars bæjarstjóri í Garðabæ í um 5 ár, forstjóri BYKO, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, hefur átt sæti í háskólaráði Háskólans í Reykjavík, háskólaráði Kennaraháskólans og í stjórn NOVA.