Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eflingar, gagnrýnir að honum sé neitað um upplýsingar og um eðlilega aðkomu að úttekt sem Efling er að láta lögmann vinna á viðskiptum Eflingar við vefhönnunarstofu Andra Sigurðssonar. Eins segir Viðar að honum sé ekki veittur andmælaréttur. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Viðari.
„Fráfarandi formaður Eflingar – stéttarfélags, Agnieszka Ewa Ziólkowska, hefur um nokkurt skeið reynt að gera störf Viðar Þorsteinssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins tortryggileg í tengslum við samstarf kynningardeildar félagsins við vefhönnunarstofuna Sigur,“ segir í yfirlýsingunni.
Vísar Viðar til þess að nú þegar sé búið að fá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte að vinna athugun á málinu, en Deloitte hafi engar athugasemdir gert við viðskiptin. Viðar minnist þess að Efling hafi eins falið sálfræðistofunni Líf og Sál til að gera vinnustaðaúttekt þar sem Viðar hafi verið tekinn fyrir.
„Þrátt fyrir þetta hefur stjórn Eflingar undir forystu Agnieszku nú í annað sinn látið hefja gerð úttektar um störf Viðars vegna þessara viðskipta. Er Viðari neitað um upplýsingar, andmælarétt og eðlilega aðkomu að þessari úttekt. Sama var uppi á teningnum við gerð fyrri úttektar um störf Viðars, sem sálfræðistofan Líf og sál vann að beiðni stjórnar Eflingar.“
Lögmaðurinn, Oddur Ástráðsson, sem vinnur nú að úttekt hringdi í Viðar á þriðjudag og boðaði hann á fund vegna málsins. Óskaði Viðar eftir því að fá þær spurningar sendar sem Oddur ætlaði að leggja fyrir hann svo hann gæti svarað þeim skriflega. Þessu hafi Oddur þó neitað. Eins hafi Viðari verið neitað um aðgang að drögum væntanlegrar úttektar og hann geti því ekki komið sínum sjónarmiðum og andmælum á framfæri.
Viðar óskaði þar að auki eftir að Efling greiddi lögfræðikostnað sem hann þyrfti annars sjálfur að greiða til að verjast ásökununum en ekkert svar hafi borist við beiðninni.
„Viðar er samstarfsmaður Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem hafði betur gegn framboðslista sem fráfarandi formaður studdi í nýafstöðnum kosningum í Eflingu. Fráfarandi formaður hóf aðdróttanir gegn Viðari tengt störfum kynningardeildar Eflingar á fundi trúnaðarráðs þann 16. febrúar síðastliðinn, daginn eftir að úrslit kosninga voru kunn. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson þáv. lögmaður Agnieszku neitaði í svari dags. 2. mars að upplýsa Viðar um inntak þessara aðdróttana, líkt og Oddur Ástráðsson gerir nú.“
Með yfirlýsingunni birtir Viðar tölvupóstsamskipti sem hann hefur átt í undanfarna daga við áðurnefndan Odd. Þar gagnrýnir Viðar að verið sé að framkvæma úttekt á kostnað félaga Eflingar gagngert til að reyna að finna „einhvern óþverra“ á Viðar. Telur Viðar að það væri því rétt að Efling borgi þá einnig lögfræðing fyrir Viðar svo hann geti varist „ofsóknum“ Agnieszku.
Þessu svarar Oddur og rekur það verkefni sem honum hefur verið falið að sinna fyrir Eflingu, en það mun vera „lögfræðileg úttekt á viðskiptum Eflingar við Sigur vefstofu ehf“ og beinist úttektin ekki sérstaklega að Viðari. Það sé undir Viðari sjálfum komið hvort hann þiggi fundarboðið eða ekki. Oddur minnir Viðar þó á að enn sé hann að fá greiðslur á uppsagnarfresti, en í því felist að hann sé skuldbundinn til að veita Eflingu upplýsingar um þau málefni Eflingar sem hann kunni að búa yfir. Í öðrum pósti sagði Oddur að Viðar þyrfti að beina ósk sinni um lögfræðikostnað til stjórnar Eflingar.
Viðar svarar þessu til að hann ætli sér að bíða eftir svari um lögfræðikostnaðinn áður en hann skili athugasemdum. Ítrekar hann þó beiðni sína um að fá skriflega þær spurningar sem Oddur vill fá svör við. Eins krefst Viðar að fá aðgang að heildarafurð úttektarinnar og tækifæri til að fá að koma viðbrögðum og andmælum á framfæri áður en hún verður kláruð.
Oddur svarar á endanum því að ekki sé nauðsynlegt fyrir Viðar að koma til fundar og gefa skýrslu – hægt sé að ljúka úttektinni á grundvelli gagna og upplýsinga hann hafi þegar um málið. Ekki sé þó fært að veita Viðari aðgang að úttektinni áður en henni verður skilað til stjórnar Eflingar.
Þessu varar Viðar með eftirfarandi tölvupósti og lýkur þá þeim samskiptum sem fylgdu yfirlýsingu.