Þingmaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ritaði í gær grein sem birtist í Morgunblaðinu þar sem hún setti vinsælu þættina Verbúðina í samhengi við íslensk stjórnmál og rifjaði upp tilurð íslenska kvótakerfisins og þegar kvótanum var úthlutað ótímabundið og frjálst framsal aflaheimilda heimilað.
Minntist hún þess að þá hafi vinstri stjórn verið við völd í landinu með aðild Alþýðubandalagsins og segir hún flokkinn hafa ákveðið að það væri mikilvægara að halda í ráðherrastóla heldur en að leggjast gegn fyrirkomulaginu.
Nú hafi Vinstri Græn tekur við og hafi fórnað harðri andstöðu sinni við kvótakerfið, til þess að geta verið í ríkisstjórn.
„Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson fórnuðu hugsjóninni í fjóra mánuði fyrir ráðherrastóla. Þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir hafa fórnað hugsjóninni fyrir ráðherrastóla í fjögur ár á síðasta kjörtímabili og lofað í stjórnarsáttmála að gera það í önnur fjögur ár.
Þessi pólitík Vinstri grænna er spegilmynd þess sem við höfum fengið að fylgjast með í Verbúðarþáttunum. Jafn nöturlegt og það er.“
Steingrímur hefur nú svarað grein Þorgerðar sem hann kallar „ásökunarfroðu“.
„Greinin er að uppistöðu til ásakanafroða sem ekki er svara verð. Ég hefði því látið kyrrt liggja ef ekki væri það að í niðurlaginu leggur Þorgerður lykkju á leið sína og sparkar í látinn félaga minn og vin. Svavar Gestsson er því miður ekki lengur á meðal vor til að svara fyrir sig.“
Steingrímur telur ljóst hvers vegna Þorgerður hafi ákveðið að nefna Svavar sérstaklega til sögunnar.
„Af hverju segi ég það að þarna leggi Þorgerður lykkju á leið sína? Jú, Þorgerður velur að nafngreina aðeins tvo af þremur ráðherrum Alþýðubandalagsins í ríkisstjórn áranna 1988-1991. Af hverju lét Þorgerður það ekki nægja að nefna bara mig og sleppa þá Svavari Gestssyni eins og hún sleppir Ólafi Ragnari Grímssyni? Getur verið að skýringin sé Svandís Svavarsdóttir? Eða vinnur Þorgerður bara yfir höfuð úr sannleikanum og sögulegum staðreyndum með valkvæðum hætti?“
Steingrímur segist almennt vera á því máli að málflutningur á borð við þann sem Þorgerður viðhefur í grein sinni sé ekki til þess fallinn að bæta stjórnmálamenninguna.
„Sem sagt þessi framsetning Þorgerðar að aðrir stjórnmálamenn séu upp til hópa ómerkilegir og selji hugsjónir sínar fyrir ráðherrastóla, aðrir en hún auðvitað. Stundum fæ ég það á tilfinninguna að Þorgerði Katrínu sé sérstaklega uppsigað við kynsystur sínar í stjórnmálum sem skara fram úr. […] Af einhverjum ástæðum eru það bara Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir sem í grein Þorgerðar eru að selja sál sína fyrir ráðherrastóla en ekki þriðji ráðherra sama flokks, Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Eða er þarna aftur á ferð, og e.t.v. óvart, hin valkvæða úrvinnsla staðreyndanna?“
Steingrímur segir að þættirnir Verbúðin séu sannkallað þrekvirki í íslenskri þáttagerð. Greinilegt sé að Þorgerður ætli að nýta sér vinsældirnar í eigin þágu.
„Vinsældirnar enda eftir því og það hefur greinilega ekki farið fram hjá Þorgerði. Um að gera að fá sér far. En pólitískar útleggingar hennar í framhaldinu rista grunnt og eru ómerkilegar.“
Steingrímur segir að Þorgerður megi velta þrennu fyrir sér:
„a) Hvernig stóð á því að sjávarútvegurinn og útflutningsgreinar almennt stóðu á barmi gjaldþrots haustið 1988? Hvers vegna þurfti víðtækar, en sem betur fer vel heppnaðar, aðgerðir til að forða hruni og atvinnumissi, sérstaklega í sjávarútveginum? Gæti þessi hörmungarstaða og þörfin fyrir bætta afkomu hafa haft áhrif á ýmislegt sem gert var misserin á eftir? Þetta getur Þorgerður rætt við Þorstein Pálsson, ég trúi að hann sé í kallfæri við Viðreisn.
b) Hvar var Þorgerður Katrín 2012 þegar alvörutilraun var gerð til grundvallar kerfisbreytinga í sjávarútvegsmálum og þar á meðal að færa aðgangsréttinn yfir á grundvöll tímabundinna nýtingarleyfa? Reyndi hún þá að hjálpa til í anda þess sem Viðreisn telur sig berjast fyrir nú eða tók hún þátt í að drepa málið sem einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins?
c) Hvaða afrek, eða a.m.k. áform um kerfisbreytingar í sjávarútvegsmálum, standa eftir frá sjávarútvegsráðherratíð Þorgerðar á árinu 2017? Þótt sú ríkisstjórn slægi Íslandsmet í skammlífi mætti ætla miðað við málflutning Þorgerðar og Viðreisnar nú að einhver áform um kerfisbreytingar hefðu hið minnsta verið kynnt.“