Á ferðalagi mínu um Úkraínu síðastliðið sumar var ég einhverju sinni á gangi á bökkum Dnepurfljóts þar sem gamall tötrumklæddur maður stóð og lék á frumstætt hljóðfæri sem líktist sílófóni. Hljómlistarmanninum lék forvitni á að vita hvaðan ég væri og er ég hafði sagt honum það vildi hann gjarnan leika fyrir mig lagstúf eftir Edward Grieg — það væri svona næsti bær við Ísland. Mér þótti þetta kómískt en leiddi mig líka til umhugsunar um það að við Íslendingar eigum varla neinar nágrannaþjóðir og getum um leið þakkað fyrir að vera á áhrifasvæði öflugasta lýðræðisríkis heims. Öðru máli gegnir um Úkraínumenn.
Í erlendum miðlum hefur talsvert verið fjalla um langa ritgerð Vladimirs Pútíns, forseta Rússlands, þar sem hann reynir að færa fyrir því söguleg og menningarleg rök að Úkraína og Rússland séu í meginatriðum eitt og hið sama. Anna Applebaum, sérfræðingur í málefnum Austur-Evrópu, var innt álits á þessu í viðtali við Die Welt á dögunum. Applebaum bendir þýskum lesendum á að þessi söguskoðun Putíns eigi að hljóma kunnuglega í eyrum sögufróðra Þjóðverja, þ.e. hugmyndin um að fullveldi nágrannaríkja sé einskis virði og sú skoðun að þjóðerni íbúa handan landamæranna sé ekki raunverulegt. Applebaum er fædd í Washingtonborg 1964, sagnfræðingur að mennt og starfar sem blaðamaður. Hún býr í Póllandi ásamt eiginmanni sínum Redek Sikorski sem er fyrrv. utanríkisráðherra Póllands og situr nú á Evrópuþinginu.
Applebaum leggur áherslu á að ef við Vesturlandabúar viljum verja vestræn gildi, fullveldi, lýðræði og friðsamlegt samfélag, þá sé það skylda okkar að aðstoða Úkraínumenn við varnir sínar svo þær haldi raunverulega aftur af mögulegri innrás Pútíns. Applebaum segir skýrt að ef Vesturlandabúar vilji frið í Evrópu þurfi að senda Úkraínumönnum vopn og önnur hergögn. Hún nefnir til samanburðar að á dögum kalda stríðsins hafi varnarviðbúnaður og viðvera tugþúsunda bandarískra hermanna í Vestur-Þýskalandi haldið aftur af innrás úr austri.
Applebaum segir afdráttarlaust í viðtalinu að hver sá sem hafni auknum vígbúnaði Úkraínu sé þar með hlynntur stríði (þ. „Wer sich weigert, die Ukraine zu bewaffnen, ist für den Krieg“). En nýr utanríkisráðherra Þýskalands, Annalena Baerbock, hefur sagt að Þjóðverjar geti ekki útvegað Úkraínumönnum vopn „af sögulegum ástæðum“. Applebaum kveðst ekki skilja þetta sjónarmið og segir að ef Baerbock sé að vísa til München-sáttmálans 1938 og innrásarinnar í Tékkóslóvakíu þá sé lærdómur þeirrar sögu að Þjóðverjum beri nú að senda Úkraínumönnum hergögn.
Applebaum telur hugsanlegt að Pútín álíti hentugt að ráðast til atlögu nú vegna þess að forysta Vesturveldanna sé óvenju veikburða og sundurþykk um þessar mundir — og þar með ólíklegri til að bregðast við af einurð en ella. Brotthvarf Bandaríkjamanna frá Afganistan kunni einnig að hafa haft áhrif. Pútín hafi ef til vill dregið þá ályktun af snautlegum flutningi bandarísks herliðs frá Afganistan að Bandaríkjamenn séu mun síður tilbúnir að færa fórnir fyrir fjarlægar þjóðir nú en áður.
Applebaum telur að það sé mat Pútíns að aukin varnarviðbúnaður Úkraínumanna, efnahagsuppgangur ríkis þeirra, styrking lýðræðis og úkraínsks þjóðernis ógni framtíðarhagsmunum Rússa á svæðinu. Sífellt fleiri Úkraínumenn álíta sig vera Úkraínumenn umfram allt — ekki Rússa þó svo að móðurmál stórs hluta þjóðarinnar sé rússneska. Allt þetta kunni að hafa leitt til þess að Pútín telji framtíðarhagmunum Rússa betur borgið með því að gera innrás núna. Eftir því sem innviðir og varnir Úkraínu styrkist verði innrás sífellt illmögulegri.
Timothy Snyder, prófessor við Yale-háskóla í Bandaríkjunum, ritar fróðlega grein sem birtist í nýjasta tölublaði Der Spiegel (5. tbl. 2022) þar sem hann nefnir meðal annars þessa röksemd Pútíns; að hann vilji „vernda“ rússneskumælandi íbúa Úkraínu. Í reynd sé meirihluti Úkraínumanna tvítyngdur, tali jafnt rússnesku sem úkraínsku og tungumál skilgreini ekki þjóðerni eitt og sér.
Í nýlegri umfjöllun Economist var fjallað um bandalag Rússa og Kínverja og meðal annars talið víst að Pútín muni ekki fyrirskipa innrás í Úkraínu fyrr en í fyrsta lagi að loknum vetrarólympíuleikunum en þeim verður slitið á sunnudaginn eftir viku, 20. febrúar. Því má velta upp hversu mikil áhrif refsiaðgerðir gegn Rússlandi muni hafa eigi þeir þess kost að halla sér að Kínverjum, næststærsta hagkerfi og iðnveldi heims, en Rússland er á hinn bóginn umfram allt ríkt af auðlindum, auðlindum sem Kínverjar ásælast.
Einar S. Hálfdánarson, lögmaður og löggiltur endurskoðandi, hefur dvalið löngum í Úkraínu við störf og þekkir vel til lands og þjóðar. Hann benti á það í grein í Morgunblaðinu 21. janúar sl. að Kínverjar jafnt sem Rússar misbeiti valdi sínu freklega innan lands sem utan. Einar skrifar: „Þeirra ríkja bíður fall sem ekki gæta varna sinna, efnahagslegs sjálfstæðis og að styðja við þau ríki og þá einstaklinga sem verða fyrir barðinu á þeim.“ Hann nefnir að þeir séu ýmsir hér á landi sem beri blak Rússum þegar kemur að yfirgangi þeirra gagnvart Úkraínu. Þeir hinir sömu hafi kokgleypt sögufalsanir þess efnis að Krímskaginn sé rússneskt land. Einar bendir á að svona afstaða lýsi takmörkuðum söguskilningi því það hafi ekki verið fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld sem Rússari urðu fjölmennastir á Krímsskaga — í kjölfar þjóðernishreinsana Stalíns. Einar skrifar síðan:
„Sé skaginn rússneskt land mega mörg önnur lönd í Evrópu svo sannarlega vara sig. Og Rússar voru enn smærri hluti íbúa Austur-Úkraínu en á Krímskaganum. Þar til Stalín lét svelta milljónir til bana fyrir minna en einni öld. Og raunar töluðu þá margir íbúa suðvesturhluta Rússlands úkraínsku.“
Þá má við þetta bæta að vesturhluti Úkraínu var frá því síðla á 18. öld undir yfirráðum stjórnvalda í Vínarborg eins og sjá má af byggingarlist í borgum á því svæði og margvíslegum menningaráhrifum öðrum. Það var ekki fyrr en með griðasáttmála Molotovs og Ribbentrops og uppskiptingu Póllands sem vesturhéruðin komust undir yfirráð Kremlverja. Úkraínumenn eru því í ýmsum skilningi meiri Evrópumenn en Rússar.
Nú þegar meiri hætta er á ófriði í Evrópu en verið hefur um áratugaskeið skiptir máli að ríki Atlantshafsbandalagsins fylki liði og styðji við varnir Úkraínu enda snýst deilan um grundvallarhugmyndafræði þar sem mætast hið frjálslynda vestræna lýðræði annars vegar og einræðishugmyndir hins vegar. Við eigum sem fyrr að taka fullan þátt í aðgerðum Atlantshafsbandalagsríkja sem geta orðið til að tryggja frið og farsæld í álfunni. Skyldan býður að verja fullveldi Úkraínu.