fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Eyjan

Byggja 170 íbúðir úr umhverfisvænni steypu

Eyjan
Laugardaginn 12. febrúar 2022 10:30

Þorsteinn Víglundsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Viggó Einar Hilmarsson við undirritun samstarfssamnings BM Vallá og MótX í gær.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Byggingarfélagið MótX og BM Vallá undirrituðu í gær samstarfssamning að byggingu íbúða við Hamranes í Hafnarfirði. Um er að ræða 5 fjölbýlishús með alls 170 íbúðum. Húsin verða Svansvottuð og byggð úr umhverfisvænustu steinsteypu sem notuð hefur hingað til í húsbyggingum á Íslandi. Þetta mun vera stærsti samningur um umhverfisvæna steypu sem gerður hefur verið hér á landi.

„Græn iðnbylting er hafin og virk þátttaka atvinnulífsins er forsenda þess að breytingar sem snúa að iðnaði, nýsköpun, tækniþróun, grænum lausnum og orkuskiptum takist vel. Það er ánægjulegt að sjá það frumkvæði sem MótX og BM Vallá sýna með þessum samningi sem nú er undirritaður og er liður í því að  draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggingariðnaði. Við vitum hvert við ætlum að fara, nú þarf að framkvæma og þetta verkefni er mikilvæg varða á leiðinni að sjálfbærara samfélagi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Samsvarar því að taka um 12 þúsund bensínbíla úr umferð á ári hverju

,,Verkefnið með MótX er tímamótaverkefni þar sem frá fyrstu stigum hönnunar er öll áhersla lögð á að lágmarka kolefnisfótspor steinsteypunnar. Fullyrða má að það sé í fyrsta skipti sem það er gert í verkefni af þessari stærð hér á landi. Við áætlum að kolefnisfótspor steinsteypunnar verði 30-40% lægra en meðaltal markaðarins í dag. Ef okkur tækist að afreka slíkt á öllum byggingamarkaðinum myndi það samsvarar því að minnka kolefnisspor um 30 þúsund tonn. Það samsvarar því að taka um 12 þúsund bensínbíla úr umferð á ári hverju,“ segir Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, sem er eigandi BM Vallá.

,,Við göngum til samstarfs við BM Vallá þar sem að fyrirtækið er komið mjög langt í þróun á umhverfisvænni steypu. Með notkun á henni minnkar kolefnisspor við þessar stóru framkvæmdir. Við göngum raunar lengra í þessum efnum en Svansvottunarviðmið segja til um. Við erum með þessu að leggja okkar af mörkum til umhverfisins og hafa jákvæð áhrif inn í framtíðina. Þetta er líka hvatning til atvinnulífsins og fyrirtækja að minnka kolefnisspor með samvinnu og samstarfi sín á milli,“ segir Viggó Einar Hilmarsson, stjórnarformaður MótX og annar eiganda fyrirtækisins.

Gert er ráð fyrir fyrstu íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar 2024 og þær síðustu fyrir árslok 2025. Viggó segir að framkvæmdir við húsin hefjist á næstu vikum. ,,Það er búið að klára jarðvegsframkvæmdir og næst er að steypa sökkla og síðan fer allt á fullt við að reisa húsin. Ég vil hrósa bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði fyrir mjög gott samstarf og fyrirmyndarvinnu í öllu ferlinu. Þetta er hvati fyrir fyrirtæki til að byggja Svansvottuð hús og Hafnarfjörður stendur mjög framarlega hvað það varðar,“ segir hann.

Hafa lækkað kolefnisspor steinsteypu um 14% á rúmu ári

BM Vallá hefur sett stefnuna á kolefnishlutleysi fyrir árið 2030 og segir Þorsteinn að slíkum árangri verði ekki náð með mótvægisaðgerðum, þ.e. trjárækt eða endurheimt votlendis, enda sé kolefnisfótspor byggingariðnaðar hátt. ,,Ráðast verður að rót vandans og draga úr beinni losun við framleiðsu á steinsteypu. Við höfum þegar náð þeim árangri að lækka kolefnisspor steinsteypu um 14% á rúmu ári og stefnum ótrauð áfram á verulega lækkun til viðbótar á þessu ári. Við erum að snúa við öllum steinum í þeim efnum, allt frá nýjum sementstegundum með lægra kolefnisspor, minni sementsnotkun með samvinnu við verktaka og hönnuði og á þessu ári munum við í fyrsta sinn dæla koltvísýringi inn í steinsteypu, sem er nýjasta tækni á heimsvísu til að draga úr kolefnisspori steypunnar. Steinsteypa er þeim eiginleikum gædd að hún bindur koltvísýring í sig á líftíma sínum og með þessari tækni hröðum við því ferli,“ segir hann og bætir við að BM Vallá áætli að kolefnisspor fyrirtækisins sé nú þegar um fjórðungi lægra en meðaltal markaðarins þegar allt er talið með.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ruglingurinn í kringum EES-samninginn og ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt

Sr. Davíð Þór Jónsson: Jólahaldið þitt heima í stofu er samfélagsmál, ekki einkamál þitt
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi