Færslan var mikið rædd í hinum ýmsum spjallþáttum og sú spurning hefur vaknað hvaða áhrif færslan mun hafa á möguleika Trump á að verða forseti á nýjan leik.
Í færslu sinni sagði Trump að rangt hafi verið haft við í forsetakosningunum 2020, sem er lygi sem hann hefur haldið fram allar götur síðan hann tapaði í kosningunum, og að svindl af þessu tagi geri að verkum að hægt sé að ógilda stjórnarskrána og öll lög og reglur er tengjast kosningum og setja hann í embætti forseta. Að auki sakaði hann stóru tæknifyrirtækin um að starfa náið með Demókrötum.
Þessi skrif hans komu í kjölfar birtingar tölvupósta starfsfólks Twitter þar sem vöngum var velt um gögn sem fundust í fartölvu Hunter Biden, sonar Joe Biden forseta, en hann hefur ítrekað verði tengdur við vafasöm viðskipti.
Líklega vakna margir Bandaríkjamenn í dag og vilja gjarnan fá svar hjá Trump við hvað hann meinti eiginlega þegar hann skrifaði fyrrgreinda færslu um stjórnarskrána.
Það hljóta að teljast stórtíðindi að fyrrum forseti og núverandi forsetaframbjóðandi lýsi yfir vilja til þess að stjórnarskrá Bandaríkjanna verði felld úr gildi. Fátt er líklegra heilagra í hugum Bandaríkjamanna en stjórnarskráin sem hefur allt frá gildistöku hennar 1789 verið talin pólitískt frelsistákn.
Ummæli Trump vöktu að vonum hörð viðbrögð meðal Demókrata sem skófu ekki utan af hlutunum í færslum á samfélagsmiðlum um helgina né í spjallþáttum. Sögðu þeir meðal annars að nú væri botninum náði í heimsku í bandarískum stjórnmálum.
Nokkrir Repúblikanar hafa einnig fordæmt færsluna en spurningin er auðvitað hversu djúpt gagnrýni þeirra ristir þegar kemur að Trump sem hefur enn góð tök á flokknum.