Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem kemur út í dag.
Í henni kemur fram að nú séu 2.392 íbúðir til sölu á landinu öllu en í byrjun nóvember voru þær 2.145. Af þessum fjölda eru 1.429 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og er það aukning um 112 frá því í byrjun nóvember.
Enn hraðari samdráttur hefur orðið í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þar voru gefnir út 96 kaupsamningar í október og 92 í september miðað við að í ágúst voru þeir 151.
Hvað varðar fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu þá seldust 19,7% íbúða yfir ásettu verði í nóvember en í október var hlutfallið 24,3% og í apríl var það 65%.
Enn heldur tólf mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, miðað við vísitölu íbúðaverðs, áfram að lækka og er hún komin í 20,3% en hún fór hæst í 25,5% í júlí. Ef miðað er við vísitölu paraðra viðskipta hefur dregið mun hraðar úr íbúðaverðshækkunum og er 12 mánaða hækkunin komin niður í 13%.
Hvað varðar leiguverð þá hækkaði það um 2% á milli mánaða í nóvember þegar miðað er við vísitölu leiguverðs. Tólf mánaða hækkun vísitölunnar mælist 9,4% sem er á pari við verðbólguna í nóvember. Það þýðir að raunverð leigu hefur staðið í stað á milli ára þrátt fyrir einhverja hækkun síðan í júlí.