Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að í svari ráðuneytanna við fyrirspurnum Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, komi fram að frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 2017 hafi ráðherrar farið í 315 utanlandsferðir. Heildarkostnaður við þær er tæpar 73.5 milljónir króna.
Meðalkostnaður við hverja ferð er 230.072 krónur. Þessi tala nær yfir árin 2018 til þess sem liðið er af þessu ári.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, er dýrastur þegar kemur að utanlandsferðum en frá því að hann tók við embætti fyrir rúmu ári hafa ferðir hans kostað 433.000 krónur að meðaltali. Þar á eftir kemur Kristján Þór Júlíusson, fyrrum ráðherra, en ferðir hans kostuðu að meðaltali 321.746 krónur.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, er ódýrastur í rekstri þegar kemur að utanlandsferðum en meðalkostnaðurinn á hverja ferð hans er 114.826 krónur.
Hægt er að lesa nánar um málið í Fréttablaðinu í dag.
Uppfært klukkan 12:00.
Eftirfarandi leiðrétting hefur borist frá dómsmálaráðuneytinu:
Í svari við fyrirspurn frá Alþingi um ferðakostnað og dagpeninga ráðherra var fargjaldakostnaður Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra árið 2022 sagður vera rúmlega 2,7 milljónir króna. Hið rétta er að fargjaldakostnaður dómsmálaráðherra árið 2022 var kr. 1.586.246. Dómsmálaráðherra fór átta sinnum til útlanda í embættiserindum á tímabilinu og er því meðalferðakostnaður, þ.e. samanlagður kostnaður við fargjöld, hótel og dagpeninga, í hverri ferð kr. 294.252 en ekki rúmar 444 þúsund krónur eins og hefði mátt ætla af fyrri tölunni. Hefur þetta nú verið leiðrétt gagnvart Alþingi. Ekki er önnur skýring á fyrri tölunni en mannleg mistök.