„Mér er bara ekki boðið á samningafundi. Ég er búin að ítreka oft að ég vilji fá fundarboð,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, í samtali við DV. Er DV falaðist eftir stöðu samningaviðræðna Eflingar við SA sagðist hún lítið geta sagt þar sem öllum upplýsingum og fundarboðum væri haldið frá henni.
Ólöf segir að samkvæmt lögum eigi hún að vera í samninganefnd þar sem hún er í stjórn Eflingar. Aðspurði hvað hún ætli að gera í þessari stöðu, segir hún:
„Það er rosalega lítið sem ég get gert nema ítreka að ég vilji fá send fundarboð en núna er loksins búið að senda þetta til ríkissáttasemjara og þá get ég bara fylgst með því hvenær þau eru að fara að hittast og reynt að hitta á þau.“
Stefán Ólafsson, hagfræðingur og sérfræðingur hjá Eflingu, sagði í gær að samningar sem VR og fleiri aðildarfélög í samfloti undirrituðu væru of hófsamir. Aðspurð hvort þetta álit Stefáns endurspeglaði andann innan Eflingar varðandi þessa samninga, segir Ólöf: „Félagsmenn Eflingar bera mikið traust til Stefáns sem er menntaður maður og hefur birt margar greinar um þessi mál.“
Aðspurð hvað henni finnist persónulega um samningana sem voru undirritaðir í gær segir Ólöf: „Það er alltaf hægt að gera betur en það er ekki hægt að gera þá kröfu að aðrir semji vel fyrir Eflingu, Efling tók þá ákvörðun að halda sig fyrir utan þetta samningssamband og ekkert hægt að gera ráð fyrir að þau séu að semja fyrir okkur.“