Icelandair tilkynnir í dag Tel Aviv sem nýjan áfangastað. Flogið verður þrisvar í viku frá Keflavíkurflugvelli, á miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum frá 10. maí til 29. október. Flugtíminn frá Íslandi er um sjö klukkustundir.
Tel Aviv er næststærsta borg Ísrael og þar er að finna fallegar strendur, fornminjar og söfn. Einnig er stutt að fara frá Tel Aviv til áhugaverðra staða á við Jerúsalem, Jórdaníu, Betlehem og Dauðahafið.
Eftirspurn eftir flugi frá Tel Aviv til Íslands hefur aukist undanfarið samhliða fjölgun ísraelskra ferðamanna. Auk þess er flogið á tíma sem hentar vel til tenginga við flug Icelandair til Bandaríkjanna og Kanada.
„Tel Aviv er spennandi nýr áfangastaður sem passar vel inn í viðskiptalíkan okkar en mikil eftirspurn er eftir ferðum á milli Ísrael og Bandaríkjanna. Þá er þetta einnig góð viðbót við flóruna sem Íslendingum stendur til boða í beinu flugi en Tel Aviv býður upp á skemmtilega blöndu menningar, sögu og sólarstranda,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.