fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Sigmundur segir þetta vera stóru kjarabótina og að spillta kunningjasamfélagið hafi átt undir högg að sækja

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 1. desember 2022 08:00

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana þá er ekki annað að sjá en að meirihluti landsmanna, það er af þeim sem taka afstöðu, sé hlynntur fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Er það jafn eðlilegt og það er skiljanlegt.

Svona hefst leiðari Fréttablaðsins í dag en hann ber fyrirsögnina „Stóra kjarabótin“ og er skrifaður af Sigmundi Erni Rúnarssyni, ritstjóra. Eins og inngangur leiðarans ber með sér er umfjöllunarefnið Evrópusambandið og ávinningur Íslands af aðild að því.

„Æ fleiri landsmenn átta sig á því að helstu samfélagsbætur sem Íslendingar hafa fundið á eigin skinni á síðustu þremur áratugum eru ættaðar frá sambandi evrópskra þjóða sem kappkostar í öllu sínu regluverki að auka samkeppnishæfni og viðskiptafrelsi hverrar aðildarþjóðar á öllum sviðum þjóðlífsins, almenningi til hagsbóta, en ekki bara sumum. Fámenna og spillta kunningjasamfélagið á Íslandi, sem hefur lagt sig í framkróka við að hygla sérhagsmunum á kostnað sanngirni og samkeppni, hefur átt undir högg að sækja hér á landi eftir að áhrifamesti alþjóðasamningur sem íslensk stjórnvöld skrifuðu undir á síðustu öld, tók gildi,“ segir Sigmundur og á þar við EES-samninginn.

Hann segir að samningurinn hafi reynst þjóðinni svo farsæll að engum heilvita manni detti í hug að segja skilið við hann.

„Og þar af leiðandi hugsar æ stærri hluti þjóðarinnar á þennan veg: Því þá ekki að tengjast betur og endanlega því sem helst hefur aukið hag okkar? Af hverju ekki að klára hálfnað verk í þeim efnum? Og geta þar með hlutast til um regluverkið sem berst hingað til lands frá höfuðstöðvum ESB, í stað þess að vera áhorfendur að atkvæðagreiðslunum?“ segir Sigmundur og bætir við að þetta sé stærsta mál samtímans hér á landi.

Með fullri aðild að ESB aukist alþjóðlega samvinna enn frekar en það sé eina tryggingin fyrir aukinni hagsæld almennings og atvinnulífs. Hann segir að skrefið í átt að fullri aðild sé auðvelt og þurfi Ísland engar undanþágur þar.

„Seta okkar við ákvarðanaborðið er ekki flóknari en svo. Hinn kosturinn er að hanga á innihaldslausu fullveldi, sem framselur atkvæðaréttinn yfir á meginland Evrópu. Það er enginn bragur á því. Ekki frekar en að hanga áfram með aumasta gjaldmiðil álfunnar sem fer með ofbeldi á hendur heimilum þessa lands og gerir efnahag þeirra fullkomlega ófyrirsjáanlegan. Gjaldmiðill sem þarfnast verðtryggingar og breytilegra vaxta er ekkert annað en hornsteinn kúgunar á hendur alþýðu fólks. Full aðild bætir hag sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar, svo og kjör neytenda og mun spara almenningi, fyrirtækjum og ríkissjóði hundruð milljarða króna með lægri vöxtum. Og það vill aukinn meirihluti landsmanna, að sjálfsögðu,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hugsi yfir gagnrýni föður Dags á Kristrúnu – „Korter í kosningar gýs upp valdabarátta“

Hugsi yfir gagnrýni föður Dags á Kristrúnu – „Korter í kosningar gýs upp valdabarátta“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka