Logi Einarsson var kjörinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar á fundi þingflokksins í dag. Logi er þingmaður Norðausturkjördæmis og var formaður Samfylkingarinnar frá árinu 2016 þar til Kristrún Frostadóttir var kjörin formaður flokksins á dögunum.
Logi tekur við þingflokksformennsku af Helgu Völu Helgadóttur sem hefur gegnt stöðunni síðan frá upphafi þings eftir síðustu alþingiskosningar.
Að auki var Þórunn Sveinbjarnardóttir kjörin varaformaður þingflokks og Jóhann Páll Jóhannsson ritari þingflokks.
„Ég er þakklátur fyrir traustið og mun gera mitt besta við að leggja nýrri forystu í Samfylkingunni lið. Það eru spennandi tímar framundan,“ segir Logi.