Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Heiðu að vandamálin séu misjöfn á milli sveitarfélaga en séu einna verst hjá þeim sem miklar þjónustuskyldur hvíla á. Hún sagði að einnig hafi verðbólga og háir vextir mikil áhrif.
„Málefni fatlaðs fólks sem sveitarfélögin sjá um eru vanfjármögnuð. Á þessu ári vantar þar um 13 milljarða kr. og því er herjað á ríkið að leiðrétta stöðuna, meðal annars í gegnum fjáraukalög. Þjónusta við þennan hóp fólk er lögbundið verkefni sveitarfélaganna og því þurfa að fylgja þær fjárveitingar sem vera ber. Hamrað hefur verið á þessu í samtölum við ráðherra,“ er haft eftir Heiðu.
Hún sagði að þau sveitarfélög, þar sem íbúum hefur fjölgað hratt að undanförnu, standi einnig frammi fyrir áskorunum sem þarf að takast á við. Innviðauppbygging sé kostnaðarsöm. Hún sagði að ætla megi að um helmingur hinna 64 sveitarfélaga landsins sé í þröngri fjárhagslegri stöðu.