fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Eyjan

Segir umræðuna um verksmiðjuna á Þorlákshöfn hafa verið einhliða – Íslendingar geti ekki setið hjá varðandi loftlagsaðgerðir

Eyjan
Laugardaginn 26. nóvember 2022 18:30

Þorsteinn Víglundsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins og talsmaður Heidelberg Materials, segir að umræður um risavaxna verksmiðju félagsins, sem áformuð er á Þorlákshöfn, hafi verið einhliða og ekki hafi verið tekið tillit til um hversu stórt loftslagsverkefni sé að ræða. Þetta kemur fram í aðsendri grein Þorsteins sem birtist á Vísi í dag þar sem hann fer yfir málið.

Heidelberg Materials hefur fengið úthlutað 55 þúsund fermetra iðnaðarlóð á Þorlákshöfn og ráðgerir þar að reisa stóra verksmiðju sem mun skarta 40-50 metra háum sílóum.

Tölvuteiknuð mynd af fyrirhugaðri verksmiðju Mynd/Heidelberg Materials

 

Áformin eru umdeild ekki síst vegna vöruflutninga en ráðgert er að moka upp í efni til sementsgerðar í Litla-Sandfelli í Þrengslunum og keyra á vörubílum í fyrirhugaða verksmiðju. Umsvif fyrirtækisins verða mikil en Þorsteinn bendir á grein sinni að í alþjóðlegu samhengi sé um gríðarlega stórt loftslagsverkefni að ræða sem árlega muni minnka kolefn­islosun vegna steypu­fram­leiðslu um 663 millj­ónir kíló CO2 ígilda. Ástæðan er sú að efnið úr Litla-Sandfelli mun koma í stað mengandi sementsklinkers sem nú er notað í sementsframleiðslu í hinum stóra heimi.

Hvaða kröfur geta Íslendingar gert til lífsgæða og efnhags án ábyrgðar

„Það er ekkert leyndarmál að byggingariðnaðurinn er einn mesti losunarvaldur koltvísýrings í heiminum. Sementsframleiðsla ein og sér er talin valda 6-8% af koltvísýringslosuninni. Það er ekki hlaupið að því að hætta notkun sements enda er það í raun uppistaðan í gríðarmörgum mannvirkjum og enginn staðgengill í sjónmáli. Þess vegna verður að finna leiðir til að minnka kolefnisspor þess. En það er einmitt hér sem við verðum að skoða stöðu mála heildstætt í heiminum.“ skrifar Þorsteinn.

Hann segir að umræðan verði líka að snúast um hvaða kröfur Íslendingar geti gert til lífsgæða og efnhags án þess að bera ábyrgð sjálf og hvort Ísland geti verið eyland þegar kemur að því að gera hlutina á ábyrgan hátt.

Telur Ísland ekki geta setið hjá

„Nútímasamfélag krefst mikils hráefnis, eldsneytis til flutninga, málma í tækin sem við notum og byggingarefnis í þróun borga og samfélaga. Við okkur blasir spurningin hvort við ætlum að taka saman ábyrgð á því að gera þetta vel, hvort við ætlum að láta af hendi lífsgæði sem við erum farin að taka sem sjálfsögðum hlut eða hvort við ætlum að gefast upp gagnvart loftslagsvandanum,“ skrifar Þorsteinn.

Hann bendir á að fjölmiðlar hérlendis hafi fjallað um neyðarköll frá COP ráðstefnunni í Egyptalandi þar sem ríki heims hafi verið grátbeðin um að draga úr losun  með öllum tiltækum ráðum og fagaðilar úr ólíkum áttum tóku undir.

„Getum við með góðri samvisku úthýst námuvinnslu til þróunarríkja og byggt okkar samfélag án þess að vita hvaðan eða hvernig byggingarefnin koma? Getum við gert kröfu um að jöklum heimsins sé bjargað án þess að taka sjálf þátt í því verkefni? Með sama hætti og við njótum afraksturs af námuvinnslu eftir hráefnum til rafhlöðusmíði í rafmagnsbíla sem gera okkur kleift að ráðast í orkuskipti í samgöngum, getum við aðstoðað Evrópuríki við lækkun kolefnisspors í byggingariðnaði með mölun og útflutningi á móbergi hér á landi.“

Eitt stærsta loftslagsverkefni sem um getur á Íslandi

Hann segir þýska sementsrisann, Heidelberg Materials, taka málið alvarlega og hyggist draga verulega úr kolefnisspori sínu. Verkefnið á Íslandi sé mikilvægur líður í þeirri viðleitni.

„Til samanburðar má nefna að eftir stækkun Carbfix verkefnisins, gríðarlega mikilvægs þróunarverkefnis sem getur haft mikil áhrif í náinni framtíð, mun lofthreinsistöð þess fanga 40.000 tonn af koltvísýringi á ári. Áætlað er að móbergsvinnslan í Þorlákshöfn muni minnka losun um allt að 1,3 milljónir tonna af koltvísýringi á ári sem samsvarar nær öllum bílaflota Íslendinga,“ skrifar Þosteinn.

Verkefnið og spurningarnar séu stórar og mikilvægt að vel sé staðið í einu og öllu að verkefninu í Þorlákshöfn. Forsvarsmenn þýska fyrirtækisins vilji gera hlutina vel en að endingu verði það að sjálfsögðu íbúar Ölfuss sem ákveða hvers konar atvinnustarfsemi fari fram í sveitarfélaginu.

„Móbergsvinnslan í Þorlákshöfn er hins vegar eitt allra stærsta loftslagsverkefnið sem komist hefur á kortið á Íslandi, útilokað er að ræða málið í heild sinni með uppbyggilegum hætti nema sá þáttur sé hafður með í jöfnunni.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Í gær

Björn Jón skrifar: Bara ef það hentar mér

Björn Jón skrifar: Bara ef það hentar mér
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur Einar: Stjórnin sprakk ekki vegna innflytjendamála heldur vegna innri ágreinings í VG og Sjálfstæðisflokki

Ásmundur Einar: Stjórnin sprakk ekki vegna innflytjendamála heldur vegna innri ágreinings í VG og Sjálfstæðisflokki
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt

Ásmundur Einar: „Borgartúnshægrið“ reyndi að hindra hlutdeildarlánin sem hafa heldur betur sannað gildi sitt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sagnfræðiprófessor: Ef Trump sigrar gæti aðild að ESB orðið kosningamál á Íslandi

Sagnfræðiprófessor: Ef Trump sigrar gæti aðild að ESB orðið kosningamál á Íslandi