VR sleit samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA) í gærkvöldi. Frá þessu greina Vísir sem segist hafa heimildir fyrir því að ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra á fundi Viðskiptaráðs í gær hafi lagst mjög illa í samninganefnd VR.
Á þeim fundi lýsti Bjarni yfir stuðningi við hækkaða stýrivexti Seðlabankans og kallaði vinnumarkaðinn raunverulega vandamálið því lítill samhljómur væri í kröfugerð verkalýðsfélaganna.
Samningsaðilar hafa undanfarnar vikur rætt um að gera samning til skamms tíma, eða 14 mánaða. Vísir segir að SA hafi boðið hækkun á launum upp á minnst 17 þúsund krónur á samningstíma, en aldrei meira en um 30 þúsund með hagvaxtarauka næsta árs inniföldum.