Murkowski, sem er 65 ára, reitti Trump sérstaklega til reiði þegar hún, ein af sjö Repúblikönum, greiddi atkvæði með því að hann dæma hann sekan fyrir landsrétti fyrir hans þátt í árás stuðningsmanna hans á þinghúsið í Washington D.C. í janúar 2021.
Hún greiddi einnig atkvæði gegn einum þeirra sem Trump tilnefndi í embætti hæstaréttardómara.
Kosningarnar í Alaska voru að mestu uppgjör á milli tveggja vængja í Repúblikanaflokknum. Trump studdi Tshibaka en meðal stuðningsmanna Murkowski voru George W. Bush, fyrrum forseti, og Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni.
Murkowski hefur áður lifað af atlögur frá ysta væng Repúblikanaflokksins. Í forkosningum flokksins 2010 tapaði hún fyrir frambjóðanda hinnar svokölluðu Teboðshreyfingar. Nafn hennar var því ekki á kjörseðlinum í ríkinu en samt sem áður tókst henni að ná kjöri inn á þing. Hún náði að fá 40% kjósenda til að skrifa nafn hennar á kjörseðilinn og stafa það rétt! Þetta dugði henni til að halda þingsæti sínu og það án þess að njóta stuðnings Repúblikanaflokksins.
Sigur hennar skiptir engu fyrir meirihlutann í öldungadeildinni, Demókratar höfðu tryggt sér hann því þeir eru með 50 þingmenn af 100. Kamala Harris, varaforseti, hefur oddaatkvæði þegar atkvæði falla jafnt í deildinni og því hafa Demókratar meirihluta þar.