Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Eins og fram hefur komið í fréttum þá hafa landsmenn verið hvattir til að spara heitt vatn að undanförnu og umræður hafa átt sér stað um að hitaveitan sé ekki sjálfbær auðlind.
Guðlaugur Þór benti á að rammaáætlunin hafi verið stopp í níu ár og á þeim tíma hafi litlar rannsóknir verið stundaðar og nánast engin ný orkuöflun átt sér stað. Þessi pattstaða hafi reynst dýr. „Ramminn snýst líka um heitt vatn, ekki bara rafmagn,“ sagði hann og benti á að Orkuveita Reykjavíkur nýti 1.200 megavatta uppsett afl af heitu vatni. Hún þurfi að tvöfalda framleiðslu sína til 2016 til að mæta fólksfjölgun á veitusvæðinu. Til samanburðar má nefna að Kárahnjúkavirkjun er 700 megavött.
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, sagði að ef áform um fiskeldi á landi gangi eftir muni það valda eftirspurn eftir heitu vatni sem sé meiri en þörf allra höfuðborgarbúa í dag. Hún segir að pattstaða rammaáætlunarinnar og hversu langt ferlið hafi verið, hafi skapað tortryggni á báða bóga. Hún sagði rammaáætlunina vera mikilvægt verkfæri en það þurfi einnig að huga að skilvirkni: „Að taka ekki tíðari ákvarðanir en gert var er óásættanlegt og hefur vitaskuld haft áhrif á þróun hitaveitunnar hér á landi,“ sagði hún.