Fyrrverandi ráðherrann Össur Skarphéðinsson telur ljóst að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hafi ekki kjarkinn til að mæta Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar.
Össur ritar færslu um þetta á Facebook í framhaldi af umræðunni um það að Bjarni hafi neitað að mæta Kristrúnu í rökræðum í Kastljósi í tilefni af skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandsbankasöluna.
„Bjarni þorir ekki í Kristrúnu.
Eina ástæðan fyrir því að tókst að koma Íslandsbankamálinu í farveg einhvers konar rannsóknar var skeleggur málflutningur Kristrúnar Frostadóttur. Það voru fyrst og fremst hnífskörp rök hennar sem hröktu Bjarna Benediktsson og ríkisstjórnina á fyrsta flóttann í málinu. Hundléleg stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis virðist ekki ná að greina aðalatriði málsins gegnum moðsuðuna sem skýrsla ríkisendurskoðunar er.“
Össur segir að fyrir vikið hafi vígstaðan í málinu breyst með þeim fáránlega hætti að Bankasýslan „sem mölbraut öll prinsipp um jafnræði og gagnsæi við sölun“ sé farinn að opinberlega hæðast að Ríkisendurskoðun. Össur segir að sama bragði að Ríkisendurskoðun hafi ekki kjarkinn til að rökstyðja mál sitt í fjölmiðlum.
„Bjarni Benediktsson, sem ber ábyrgð á málinu, veit að hann er næstum sloppinn úr fárviðrinu sem í öðrum löndum hefðu leitt til afsagnar.“
Það eina sem Bjarni þurfi að passa núna sé að forðast að lenda á móti Kristrúnu í fjölmiðlum því hún hafi yfirburðatök á efnahagsmálum og sé það vel vitað í Valhöll að Kristrúnu myndi reynast einfalt að „skræla utan af Bjarna falsrökin og blekkingarvefinn sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin lætur ríkisstjórnina komast upp með.“
Nú sé það stefna Valhallar að forðast með öllum ráðum að Bjarni þurfi að mæta Kristrúnu vegna málsins.
„Til vara er áróðursmaskína flokksins ræst til að tala Kristrúnu daglega niður í Morgunblaðinu, í pirringspistlum hugmyndafræðinga eins og Björns Bjarnasonar, Brynjars Níelssonar auk annarra smærri pótintáta á netinu.“
Þess vegna hafi Bjarni hafnað því að mæta í Kastljós með Kristrúnu.
„Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki í rökræður við Kristrúnu Frostadóttur um Íslandsbankamálið.“