Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og vitnar í nýja rannsókn sem Kristján Vigfússon, kennari við HR, gerði og hefur verið birt í tímaritinu Marine Policy.
Í henni kemur fram að hávær og neikvæð pólitísk umræða um sjávarútveg og þar með um framtíð greinarinnar hafi mikil og vond áhrif að mati útgerðarmanna. Fram kemur að ein ástæða kvótasamþjöppunar sé óvissa sem skapast í kringum kosningar.
Fréttablaðið ræddi við Daða Hjálmarsson, útgerðarstjóra KG Fiskverkunar, sem situr í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann sagðist tengja vel við niðurstöður rannsóknarinnar. „Maður upplifir sig bara sem vonda karlinn, það er bara þannig,“ sagði hann.
Hann sagði að það sé ekki síst vegna umræðu alþingismanna um greinina að hallað sé á greinina að ósekju. „Mér finnst umræða um að kerfið sé óréttlátt vera mjög vitlaus. Ég lendi oft í að þá er verið að vísa til einhvers sem gerðist löngu áður en ég fæddist,“ sagði hann.