Árni Tómas Ragnarsson læknir segir íslenska stjórnmálamenn hafa illan bifur á einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og því fái sjúklingar hjá Klíníkinni í Ármúla engan kostnað niðurgreiddan og sérfræðilæknar séu samningslausir sem valdi stjórnleysi gagnvart notendum þjónustu þeirra. Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu.
Árni segir:
„Það hefur verið opinber stefna íslenskra stjórnvalda um árabil að Íslendingar skuli fá heilbrigðisþjónustu að langmestu leyti á kostnað hins opinbera; ríkiskassans (sbr. sjúkrahúsin og heilsugæslan) eða Sjúkratryggings Íslands, en einkarekin þjónusta hefur lengi verið illa séð af heilbrigðisyfirvöldum. Sú afstaða hefur kristallast fyrst og fremst í andstöðu Sjúkratrygginga við starf Klíníkurinnar í Ármúla, sem er einkarekin og fá skjólstæðingar hennar ekki niðurgreiddan neinn kostnað við heilbrigðisþjónustu þar eins og annars staðar.“
Árni segir hins vegar að þjónusta sjálfstætt starfandi sérfræðinga sé miklu umfangsmeiri en starfsemi Klíníkurinnar og vegna andúðar á einkarekstri hafi Sjúkratryggingar ríkisins ekki samið við sérfræðilækna í undanfarin fjögur ár. Lögmál villta vestursins ríki þegar kemur að kostnaði sjúklinga sérfræðilækna. Samningsleysið valdi því að sérfræðingar geti rukkað sjúklinga eins og þeim sýnist:
„Nú hafa þessir samningar ekki verið í gildi í fjögur ár og því geta sérfræðingarnir rukkað skjólstæðinga sína eins og þeim sýnist. Ýmsir þeirra hafa notfært sér þetta og taka mishá „komugjöld“ af skjólstæðingum sínum umfram það sem gömlu samningarnir kváðu á um, stundum býsna há gjöld sem koma hvergi opinberlega fram og leggjast ekki inn á afsláttarreikning fólks hjá sjúkratryggingum og nýtast því ekki. Aðrir læknar eins og ég sjálfur rukka eftir gamla samningnum og hef ég því ekki fengið greiðsluhækkun fyrir verk mín eins og aðrir landsmenn í fjögur ár.“
Árni bendir á að sá sem fái þjónustu heilsugæslu greiði aðeins um 800 krónur fyrir komu til læknis en fari hann til sérfræðings geti kostnaðurinn verið á bilinu 10 til 20 þúsund krónur:
„Ástæðan er sú að Sjúkratryggingarnar greiða á pólitískum forsendum niður hið fyrrnefnda um 10-20 þúsund krónur, en hið síðarnefnda með kannski aðeins eitt þúsund krónum og láta skjólstæðinginn sjálfan um að greiða afganginn.“
Árni segir að annaðhvort ríki stefnuleysi eða yfirgengilegt ranglæti í kerfinu og lögmál villta vestursins ríki gagnvart notendum íslenska heilbrigðiskerfisins.