Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segir að þessi útreikningur blaðsins byggist á tölum sem eiga við fulltrúa umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins en það sendir sex fulltrúa á ráðstefnuna. Kostnaðurinn við hvern þeirra er misjafn því þeir dvelja mislengi í Egyptalandi.
Blaðið segir að í skriflegu svari frá ráðuneytinu komi fram að áætlaður kostnaður á hvern þátttakanda sé 700.000 til 1,6 milljónir.
Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um kostnað annarra fulltrúa í sendinefndinni eða annarra Íslendinga á ráðstefnunni. Ef miðað er við að kostnaður þeirra sé svipaður og fyrir starfsfólk ráðuneytisins gæti heildarkostnaðurinn verið um 50 milljónir. Er þá miðað við meðalkostnað upp á 1,15 milljónir á hvern þátttakanda.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, sækir ráðstefnuna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar ásamt 16 manna fylgdarliði.
Hægt er að lesa nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.