fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Sigmundur segir þetta vera vanda Sjálfstæðisflokksins

Máni Snær Þorláksson
Laugardaginn 5. nóvember 2022 12:16

Sigmundur Ernir Rúnarsson. Mynd/Stefán Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Vandi Sjálfstæðisflokksins, sem heldur nú landsfund sinn eftir margra ára bið, er ekkert endilega fólginn í forystu hans, heldur miklu fremur í stefnunni, sem er jafn óljós og hún hefur afvegaleiðst í pólitískri framkvæmd.“

Svona hefst grein sem Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar í helgarblað Fréttablaðsins. Sigmundur segir að í fyrri tíð hafi Sjálfstæðisflokkurinn verið á móti því að báknið þendist út að óþörfu en að nú sé staðan önur. „Í valdatíð flokksins á síðustu áratugum hefur stofnanaveldið vaxið verulega og það sem meira er, ríkisstarfsmenn leiða nú launaþensluna í samfélaginu, einkafyrirtækjum til tjóns og vansa,“ segir hann.

„Þá hefur skattastefna flokksins í reyndinni verið heldur í átt til þyngri byrða fyrir landsmenn, en nú síðast, svo dæmi sé tekið, á að hækka áfengisgjaldið umtalsvert, þvert á orð sjálfs fjármálaráðherra sem hefur opinberlega goldið varhug við auknum álögum á þeim pósti.“

Sigmundur segir þó að merkilegustu sinnaskipti flokksins séu í utanríkismálunum. „Enginn flokkur talaði jafn duglega fyrir vestrænni samvinnu og Sjálfstæðisflokkurinn á síðustu öld. Enginn flokkur varði jafn rækilega gildi skoðanafrelsis og frjálsræðis í samskiptum fólks og þjóðvelda. Á því sviði var flokkurinn upp á sitt besta – og átti raunar senuna, en hjáróma raddir annarra flokka í þeim samanburði voru á tíðum ámátlegar,“ segir hann.

Nú sé flokkurinn „kominn inn í eigin skel“ þegar kemur að Evrópumálunum samkvæmt Sigmundi. „Hann talar þvert á það sem allir aðrir hægriflokkar í Evrópu boða, um mikilvægi samstöðunnar og samstarfsins innan álfunnar. Gamli íhaldsflokkurinn á Íslandi er meira að segja búinn að lauma sér hægra megin við öfgasinnaða þjóðernisflokka Evrópu í þessum efnum,“ segir hann.

„Og það er auðvitað sláandi að á meðan allt öfgahægrið í álfunni áttar sig á því að sameinuð Evrópa er kjarni tilveru okkar, situr Sjálfstæðisflokkurinn við sinn keip – og hatast út í Evrópusambandið.“

Sigmundur bendir þá á að Svíþjóðardemókratar, AfD í Þýskalandi og flokkur Le Pen í Frakklandi séu ekki á móti Evrópusambandinu. „Meira að segja nýnasistaflokkur Gorgiu Meloni á Ítalíu, hafa allir látið af andstöðu sinni við Evrópusambandið og lagst á sveif með því á seinni árum. Og það eru út af fyrir sig stórtíðindi að svona þjóðernissinnaðir hægriflokkar skuli yfirleitt skipta um skoðun í þessu efni,“ segir hann.

„En Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að vera sér á báti í þessum efnum. Í Evrópumálum ætlar hann að vera hægra megin við öfgahægrið í Evrópu. Hann langar helst að vera heilagri en Miðflokkurinn í þessum efnum. Og uppsker eftir því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt