Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður, fer hörðum orðum um ástandið á ÍL-sjóði, sem áður hét Íbúðalánasjóður, í grein í Morgunblaðinu í dag. Í Facebook-færslu þar sem Vilhjálmur deilir greininni, segir hann: „Í dag fjalla ég um Íbúðalánasjóð og allan þann glæp gegn þjóðinni.“
Vilhjálmur rekur þá sögu þegar lánshlutfall var hækkað mikið til að uppfylla loforð stjórnmálamanna, bankar tóku að veita lán á betri kjörum og því greiddu fjölmargir upp lán sín hjá Íbúðalánasjóði og skiptu yfir í bankalán. Þar með varð sjóðurinn af vaxtatekjum og eiginfjárstaðan varð neikvæð:
„Árið 2004 var önnur snilli á ferð á íbúðalánamarkaði. Íbúðalánasjóður skipti út útgefnum skuldabréfum sínum, „húsbréfum“, og lét lántakendur hafa „íbúðabréf“ í þeirra stað. Meginmunur á „íbúðabréfum“ og „húsbréfum“ var sá að „íbúðabréfin“ voru ekki innkallanleg.
Það er meginatriði í samningarétti að samning skal rækja, meðal annars lánasamninga. Lánasamningur til 40 ára með föstum vöxtum skal halda í 40 ár, hvort sem lántaka líkar betur eða verr, jafnvel þótt lánskjör séu honum óhagstæð, „pacta sunt servanda“.
Nú átti að lána og leysa hvurs manns vanda. Lánahlutföll hækkuðu og lánað sem aldrei fyrr.
Þá kom upp nýtt vandamál. Bankar hófu lánveitingar og yfirbuðu Íbúðalánasjóð.
Helstu samkeppnistæki banka og sparisjóða á íbúðalánamarkaði voru:
• Vextir, sem voru lægri en útlánavextir Íbúðalánasjóðs
• Hátt lánshlutfall
• Ekkert hámark lánsfjárhæðar
• Innlánsviðskipti lántaka“
Vilhjálmur bendir á að á síðari hluta ársins 2004 hafi uppgreiðslur að frádregnum nýjum lánum hjá sjóðnum numið 68,8 milljörðum. Staða ÍL-sjóðs í dag er sú að eigið fé sjóðsins er neikvætt um 197 milljarða. Ríkisábyrgð er á sjóðnum. Vilhjálmur spyr hvort lífeyrisþegar í landinu eigi að bera þennan skaða:
„Er það eðlilegt að lífeyrisþegar í landinu beri þann skaða sem kosningaloforð stjórnmálaflokka hafa í för með sér? Sér í lagi þegar loforðin hafa ekki fengið þinglega meðferð? Það er dálítið ódýr lausn. Það að lántaki breyti lánskjörum sér í vil á langtímasamningi eru ekki eðlilegir viðskiptahættir. Sérstaklega þegar lánveitandi á að vera í góðri trú, án þess að undirferli sé að baki.“
Vilhjálmur skefur ekki utan að því er hann lýsir áliti sínu á því framferði stjórnmálamanna að beita óraunhæfum loforðum til að ná kosningu. Þau spjót standa á Framsóknarflokknum sem lofaði 90% lánshlutfalli íbúðalána í kosningabaráttunni árið 2003. Vilhjálmur segir fólk vera of saklaust til að skilja eðli stjórnmálamanna:
„Það er allra verst að lýðsleikjur skuli komast upp með skrum og loforð út yfir alla skynsemi og nái kosningu. Það að þeim sem vara við skuli útskúfað og þurfa að greiða að lokum er út úr öllu réttlæti.
Þegar stjórnarherrar stjórna illa er eðlilegt að kjósendur borgi. Fólk hefur ekki ímyndunarafl til að skilja stjórnmálamenn. Fólk er of saklaust.“