Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og meðlimur í stjórn Landssambands Sjálfstæðiskvenna, er ein þeirra sem hefur stungið niður penna í tilefni kosningarinnar en hún styður við bakið á Bjarna. „Ábyrgð okkar landsfundarfulltrúa er mikil og við þurfum að horfa nokkra leiki fram í tímann og spyrja okkur þessara spurninga: Er Guðlaugur Þór sú breyting sem ég vil akkúrat núna? Er Guðlaugur Þór yfir höfuð raunveruleg breyting?“ segir hún meðal annars í pistlinum sem birtur var á Vísi í dag.
Svo virðist þó vera sem Gígja sé á því að kominn sé tími á konu í formannsembættið, hún vilji ekki breyta til því breytingin úr Bjarna í Guðlaug sé ekki nógu mikil. „Sjálfstæðismenn hafa átt 9 afbragðs formenn í yfir 90 ára sögu flokksins og allir eiga þeir það sameiginlegt að vera miðaldra karlmenn. Ef sjálfstæðismenn vilja raunverulega breytingu, er sú breyting í boði akkúrat núna? Er svona nauðsynlegt að breyta bara til þess að breyta?“ segir hún.
„Sjálfstæðismenn þurfa nú að sameinast um það að klára yfirstandandi kjörtímabil með krafti undir styrkri stjórn núverandi forystusveitar. Síðan er kominn tími til að leyfa nýrri kynslóð sjálfstæðismanna –ungum konum sem körlum – að taka við keflinu og leiða flokkinn.“
Guðný Halldórsdóttir, hagfræðingur og ung sjálfstæðiskona, er einnig í liði með Bjarna en hún vísar til þess í sínum pistli á Vísi. Guðný segir herferð Guðlaugs í aðdraganda kosninganna minna á kosningabaráttu Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Sá samanburður stafar einna helst af því að Guðlaugur hefur endurtekið einfalda frasa. Þá segir hún að Guðlaugur hafi ekki „einu sinni gert tilraun“ til að rökstyðja hvernig hann ætlar sér að auka fylgi flokksins.
„Eini vísir að svari sem greinarhöfundur hefur orðið var við er sá að Guðlaugur Þór hafi heyrt í fólki sem hafi áður verið í flokknum sem gæti hugsað sér að koma til baka. Það eru alveg örugglega ekki þau sem gengu til liðs við Viðreisn á sínum tíma, líklegra er að það séu einhverjar örfáar hræður sem gengu til liðs við Miðflokkinn. Á framboðsfund Guðlaugs Þórs voru enda mættir einstaklingar sem voru frambjóðendur Miðflokksins fyrir ekki nema fjórum mánuðum síðan.
Sé Guðlaugur Þór að reyna að höfða til fylgis Miðflokksins ætti sú taktík að nota einfalda og endurtekna frasa ekki að koma á óvart. Frægt er að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, notaði nákvæmlega sömu taktík með góðum árangri í aðdraganda þess að hann var kjörinn forseti. Donald Trump hefur einmitt helst höfðað til Miðflokksmengisins hér á Íslandi – mengis sem raunar hefur farið hratt minnkandi. Ekki vænleg uppspretta það.“
Eins og fyrr segir þá eru pistlahöfundar báðum megin við víglínuna. Sjálfstæðismaðurinn Viggó Einar Hilmarsson er til dæmis einn þeirra pistlahöfunda sem eru Guðlaugs megin í lífinu. Viggó talar um það í sínum pistli á Vísi að flokkurinn hafi átt erfitt síðasta áratuginn, í stjórnartíð Bjarna. „Því miður þá hefur flokkurinn okkar klofnað aftur og aftur, oftast af ástæðum sem líklegast hefði mátt koma í veg fyrir,“ segir hann og fer svo yfir klofningana.
„Fyrsti stóri klofningurinn myndaðist þegar stór hluti flokksystkina okkar sáu sér ekki lengur fært að starfa innan flokksins, fannst ekki á þau hlustað, og stofnuðu Viðreisn. Viðbrögð flokksforystunnar voru einföld; farið hefur fé betra. Talað var um þennan klofning á þann hátt í Valhöll að um væri að ræða tímabundið ástand sem myndi lagast af sjálfu sér, þetta fólk myndi sko allt snúa aftur innan tíðar. Síðan þá eru liðin 6 ár og enn bólar ekkert á þessu fólki, sem situr enn sem fastast í sínum nýja flokki.
Næsti klofningur myndaðist í kjölfar umræðu um þriðja orkupakkann. Aftur sá stór hluti flokksystkina okkar sér ekki fært að starfa lengur innan flokksins, fannst ekki á þau hlustað, yfirgáfu flokkinn og gengu ýmist í Miðflokkinn eða Fólk flokksins. Stefið frá Valhöll var hið sama; farið hefur fé betra – flokkurinn þyrfti ekki á þessu fólki að halda.“
Viggó segir nýjasta klofninginn hafa myndast í kosningunum síðasta haust og síðasta vor. „Í þessum tvennum kosningum sáu aftur alltof mörg flokksystkin okkar sér ekki fært að kjósa flokkinn okkar, fannst ekki á þau hlustað, og kusu í staðinn Framsókn,“ segir hann.
„Enn á ný voru viðbrögð Valhallar þau sömu; farið hefur fé betra – við „unnum varnarsigur“ og erum ennþá „stærst.“
Nú er staðan sú að flokkurinn okkar þolir ekki meiri klofning. Við sjáum það á fylgi flokksins, bæði í Alþingiskosningum og í sveitarstjórnakosningum. Meira að segja í lykilvígi flokksins í Garðabæ, hangir bæjarstjórnarmeirihlutinn á bláþræði. Staða flokksins er hreinlega sú, að við höfum ekki efni á að missa fleirri flokksystkin yfir í aðra flokka.“
Viggó segir að nú sé kominn tími til að sameina flokkinn á ný en hann telur að Guðlaugur sé límið sem þarf til að tjasla flokknum saman.
Hugbúnaðarsérfræðingurinn Birgir Gunnlaugsson er einnig í liði með Guðlaugi. Í pistlinum sínum á Vísi talar Birgir um sína eigin reynslu af Guðlaugi en Birgir var varaformaður Fjölnis þegar Guðlaugur var formaður félagsins. „Gulli tók við Fjölni á umbrotatímum, æskuárin voru liðin hjá félaginu og framundan að vaxa úr grasi. Gulli tók við ágætu búi hjá Fjölni en undir hans forystu stækkaði félagið og dafnaði í að verða eitt stærsta íþrótta- og ungmennafélag Íslands,“ segir Birgir í pistlinum.
Birgir talar svo um að fjöldi sjálfboðaliða hafi margfaldast og að fjöldi deilda í félaginu hafi aukist undir stjórn Guðlaugs. Þá hafi Guðlaugur einnig lagt drögin að uppbyggingu aðstöðu félagsins til áratuga með samningi við Reykjavík.
„Gulli hefur einstakan hæfileika til að virkja og sameina afl grasrótarinnar, leiða saman ólíka einstaklinga, kalla fram það besta í hverjum einstaklingi til hagsbóta fyrir ríkari málefni og virkja fólk á þann hátt sem hentar hverjum og einum best og skilar mestum árangri.“
Guðlaugur hefur einmitt lagt mikla áherslu á að efla grasrótina í Sjálfstæðisflokknun í sinni kosningabaráttu. Birgir telur að Guðlaugur geti gert það sama sem formaður Sjálfstæðisflokksins og hann gerði þegar hann var í sömu stöðu hjá Fjölni. „Núna köllum við til Guðlaugs og viljum að hann vinni veg Sjálfstæðisflokksins sem mestan sem nýr formaður, líkt og hann hefur gert fyrir þau málefni sem hann hefur hingað til lagt lið með einstökum árangri,“ segir hann.
„Við verðum að fá hann til að rjúfa kyrrstöðuna og endurvekja þau gildi sem við svo mörg fylgjum af heilhug.Ég hef verið verkamaður allt mitt líf, alinn upp af einstæðri móður sem vann myrkrana á milli til að sjá fyrir fimm barna hópi. Eins og móðir mín er ég Sjálfstæðismaður – engin stefna hefur fært okkur betri lífsgæði og engin flokkur rúmað jafn ólíkar skoðanir. Það er mér mikill heiður að fá að leggja Gulla lið, hvetja til að gegna formennsku fyrir flokkinn okkrar allra.“