Þetta er mat Stefaníu Óskarsdóttur stjórnmálafræðings. Í samtali við Fréttablaðið sagði hún að ríkisstjórnarsamstarfið geti laskast ef Guðlaugur Þór sigrar.
Hún sagði að ef Bjarni tapar og hætti í stjórnmálum muni það væntanlega þýða að stjórnarsamtarfið verði endurmetið. Yfirlýsingar Guðlaugs um að hann vilji lækka skatta og draga úr ríkisútgjöldum falli ekki endilega vel að stjórnarsáttmálanum. „Það er mjög mikið undir og ég er undrandi á þessu framboði Guðlaugs Þórs. Það væri allt annað uppi á teningnum ef það drægi að alþingiskosningum eða ef Bjarni hefði íhugað að stíga til hliðar,“ sagði hún.
Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur, sagði að styrkur Bjarna felist í að hann hafi leitt flokkinn í ríkisstjórn óslitið síðan 2013. Hann sagði vísbendingar um að Guðlaugur meti það sem svo að hann eigi allnokkra möguleika á að sigra. „Maður myndi ætla að Guðlaugur ætti undir högg að sækja, í ljósi þess mikla árangurs Bjarna að tryggja flokknum sæti í ríkisstjórn svo lengi. En það er varasamt að vanmeta Guðlaug. Hann er með mjög öflugan her stuðningsmanna og líklegt að hann hafi kortlagt landsfundarfulltrúa vel. Mér þykir líklegt að Guðlaugur telji að hann eigi þokkalega möguleika, að vinna, eða tapa með litlum mun,“ sagði Ólafur.