Ljóst er að ríkisstjórnin þarf á stuðningi Radikale Venstre að halda og því kemst Frederiksen ekki hjá því að boða til kosninga. Þing var sett í gær og reiknuðu margir með að þá myndi Frederiksen tilkynna um kosningar á næstunni en það gerði hún ekki.
Sofie Carsten Nielsen, formaður Radikale Venstre, sagði í gær að flokkurinn geti sætt sig við að Frederiksen boði ekki til kosninga fyrr en í dag, miðvikudag, en ef það verði ekki gert leggi hann fram vantrauststillögu á fimmtudaginn.
Frederiksen vill alveg örugglega ekki takast á við vantrauststillögu á þingi og því er reiknað með að hún boði til kosninga í dag. Það styrkir þessar væntingar að Jafnaðarmannaflokkurinn (Socialdemoktratiet) birti heilsíðuauglýsingar í öllum stærstu dagblöðum landsins í dag þar sem kosningar eru nefndar.
„Raunveruleikinn snýst um samvinnu. Kosningarnar snúast um hver getur látið það gerast,“ segir í auglýsingunni sem birtist meðal annars í Jótlandspóstinum, Berlingske, Ekstra Bladet, B.T. og Politiken.
Á mynd, sem fylgir auglýsingunni, stendur Frederiksen umkring formönnum Venstre, De Konservative, SF og Radikale Venstre. Í texta er hvatt til breiðrar samvinnu og „sameiginlegra lausna á þeim stóru áskorunum sem blasa við“.
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum getur staðan að kosningum loknum orðið mjög flókin því rauð blokk, sem eru vinstri flokkarnir og miðjuflokkar, og blá blokk, sem eru hægri flokkar og miðjuflokkar, eru með nánast jafn mikið fylgi. Ríkisstjórnarmyndun gæti því orðið erfið.
Það gæti farið svo að þeir fjórir þingmenn sem koma frá Grænlandi og Færeyjum geti ráðið úrslitum um hvernig ríkisstjórn verður mynduð en einnig gætu Moderaterne, sem er flokkur Lars Løkke Rasmussen, fyrrum forsætisráðherra og formanns Venstre, komist í lykilstöðu. Rasmussen hefur sagt að flokkurinn muni aðeins styðja ríkisstjórn sem er mynduð yfir miðjuna, sem sagt með aðkomu vinstri og hægri flokka.
Leiðtogar hægri flokkanna hafa útilokað að vinna yfir miðjuna en það hefur Frederiksen ekki gert og hefur að undanförnu sagt nauðsynlegt að unnið verði yfir miðjuna á næsta kjörtímabili.