fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Hvað gerðist á heimili Pelosi-hjónanna? Sviðsett árás og maður sem selur vændi?

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 31. október 2022 06:07

Frá vettvangi við heimili Pelosi-hjónanna á föstudaginn. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á föstudaginn réðst maður inn á heimili Nancy og Paul Pelosi í San Francisco. Nancy var ekki heima en maðurinn veitti Paul alvarlega áverka og liggur hann á sjúkrahúsi þar sem hann gekkst undir aðgerð. Talið er að hann muni ná sér að fullu.

Í upphafi var margt óljóst um tilefni árásarinnar en á laugardaginn skýrði lögreglan frá því að pólitískar ástæður lægju að baki. Nancy Pelosi er forseti fulltrúadeildarinnar og þar með þriðja valdamesta manneskjan í Bandaríkjunum, aðeins forsetinn og varaforsetinn standa framar í valdaröðinni.

Í kjölfar árásarinnar bentu margir stjórnmálamenn á þær hótanir sem þeim og fleiri stjórnmálamönnum hafa borist og þá sérstaklega eftir árás stuðningsmanna Donald Trump á þinghúsið í Washington D.C. í janúar 2021.

William Scott, lögreglustjóri í San Francisco, sagði að árásin hafi ekki verið „tilviljun“ heldur „meðvitaðan verknað“.

Bandarískir fjölmiðlar segja að árásarmaðurinn, hinn 42 ára David DePepe, hafi spurt sérstaklega eftir Nancy Pelosi eftir að hann braust inn á heimili hjónanna. „Hvar er Nancy? Hvar er Nancy?“ spurði hann.

Þegar í ljós kom að Nancy var ekki heima virðist hann hafa ákveðið að halda Paul föngnum og bíða eftir að Nancy kæmi heim. Paul náði að hringja í neyðarlínuna, hann gat ekki talað beint í símann en hélt sambandi við neyðarlínuna og starfsmaður þar áttaði sig á hvað var að gerast og sendi lögreglumenn á vettvang.

CNN segir að þegar lögreglumenn komu á vettvang hafi árásarmaðurinn ráðist á Paul með hamri. Árásin var að sögn tekin upp á búkmyndavélar lögreglumannanna.

Eins og fyrr segir var Nancy ekki heima, hún var í Washington D.C. þar sem hún naut verndar þinglögreglunnar sem annast öryggisgæslu þingmanna. Bandarískir fjölmiðlar segja að þinglögreglan hafi þurft að bæta mjög í gæslu af þessu tagi að undanförnu vegna sífellt fleiri hótana sem berast þingmönnum úr bæði Demókrataflokknum og Repúblikanaflokknum.

Samsæriskenningar

Eins og við má búast í því klofna landi, sem Bandaríkin óneitanlega eru á stjórnmálasviðinu, þá blossuðu samsæriskenningar upp strax og fréttist af árásinni. Margir segja að árásin hafi ekki átt sér stað, telja málið allt hafa verið sviðsett.

Meðal þeirra er Roger Stone, fyrrum pólitískur ráðgjafi Donald Trump. Á Telegram skrifaði hann að málið „lykti“.

Paul og Nancy Pelosi. Mynd:Getty

 

 

 

 

 

 

Elon Musk, milljarðamæringur og eigandi Twitter, birti færslu, auðvitað á Twitter, fyrir 112 milljónir fylgjenda sinna þar sem hann sagði að „það sé smá möguleiki á að sagan innihaldi meira en sést með berum augum“. Hann setti síðan inn tengil á vefsíðu, Santa Monica Observer, sem er þekkt fyrir að dreifa röngum upplýsingum sem hugnast hægri sinnuðum popúlistum vel að sögn Washington Post. Í grein þessa miðils segir að Paul hafi verið ölvaður þegar ráðist var á hann og hafi lent í „rifrildi við karlmann sem selur vændi“. Washington Post segir að miðillinn leggi engar sannanir fram fyrir þessari fullyrðingu. Þessi sami miðill skýrði frá því 2016 að Hillary Clinton væri látin og að tvífari hafi tekið við hlutverki hennar.

Kvikmyndagerðarmaðurinn Dinesh D‘Souza, sem er mjög hægrisinnaður, sagði fylgjendum sínum á Twitter, sem eru 2,5 milljónir, að fréttir af árásinni séu „hlægilegar og lygilegar“ og sagðist telja að yfirvöld hafi sviðsett málið til að bjarga Pelosi-fjölskyldunni.

Mun þetta hafa áhrif á kosningarnar?

Kosið verður um öll þingsætin í fulltrúadeildinni eftir rúma viku, þriðjung sæta í öldungadeildinni og 36 af 50 ríkisstjóraembættum.

Í kjölfar árásarinnar hefur sú spurning vaknað hvort hún muni hafa áhrif á niðurstöður kosninganna, sérstaklega í ljósi þess að pólitískar hvatir lágu að baki henni.

Á kosningafundi í Pennsylvania sagði Joe Biden, forseti, að árásin sýni að það sé allt of mikið „pólitískt ofbeldi“ í Bandaríkjunum. „Hvað fær okkur til að halda að það að flokkur geti talað um stolnar kosningar, að COVID-19 sé blekking, að þetta sé allt bara lygi og að þetta hafi ekki áhrif á fólk sem er kannski ekki í jafnvægi,“ spurði hann.

Fleiri stjórnmálamenn hafa tekið í sama streng, þar á meðal Repúblikaninn Susan Collins frá Maine. Hún sagði nýlega í samtali við New York Times að svo miklar hótanir dynji á helstu stjórnmálamönnum landsins að það geti vel farið svo í náinni framtíð að einhver verði drepinn. „Það mun ekki koma mér á óvart ef öldungadeildarþingmaður eða fulltrúadeildarþingmaður verði drepinn,“ sagði hún í kjölfar þess að rúða var brotin í húsi hennar í Maine. „Það sem byrjaði með óþægilegum símtölum er nú komið yfir í að vera beittari hótanir og ofbeldi,“ sagði hún.

Nancy Pelosi er þyrnir í augum margra hægrimanna.

 

 

 

 

 

Nancy Pelosi hefur margoft fengið hótanir frá hægrisinnuðum hópum í Bandaríkjunum sem telja hana allt of frjálslynda. Fyrir árásina á þinghúsið á síðasta ári var mikið um hótanir, sem beindust gegn henni, í hinum ýmsu spjallhópum á netinu.

Í kjölfar árásarinnar á þinghúsið kom fram að stuðningsmenn Trump höfðu leitað sérstaklega að Nancy og höfðu í hótunum um að vinna henni mein. Þá hljómaði einnig: „Hvar er Nancy?“

Skemmdarverk hafa verið unnin á heimili hennar, slagorð hafa verið máluð á hús hennar og grísahaus skilinn eftir við bílskúrinn.

Bandarískir fjölmiðlar segja að maður, sem ber sama nafn og sá sem var handtekinn heima hjá Pelosi-hjónunum, hafi birt færslur á samfélagsmiðlum með samsæriskenningum um árásina á þinghúsið og um bóluefni gegn COVID-19. Hann er einnig sagður hafa birt hatursræðu um litað fólk og samkynhneigt.

En hvað varðar spurninguna um hvort árásin muni hafa áhrif á kosningarnar þá er að margra mati erfitt að spá fyrir um það. Margir telja að Demókratar muni stíga varlega til jarðar við að reyna að nýta sér hana í kosningabaráttunni, þetta sé vopn sem geti snúist í höndum þeirra. Aðrir telja hins vegar að þetta geti verið vendipunkturinn í kosningunum og muni koma Demókrötum vel en þeir eiga í vök að verjast samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana og eiga á hættu að missa meirihluta sinn í fulltrúadeildinni og jafnvel öldungadeildinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt