„Ég óska Elon Musk til hamingju með kaup hans á Twitter. Margir telja að þetta sé nauðsynleg breyting því fyrri stjórnendur höfðu áhyggjur af „woke“ dagskránni. Ég hef fengið upplýsingar um að búið verði að opna aðgang minn aftur á mánudaginn. Við sjáum hvað gerist,“ skrifaði Trump.
Í kjölfar árásar stuðningsmanna Trump á bandaríska þingið í janúar á síðasta ári ákváðu stjórnendur Twitter, sem nú eru fyrrum stjórnendur fyrirtækisins, að útiloka Trump frá miðlinum. Ástæðan var að þeir höfðu áhyggjur af að hann myndi hvetja til ofbeldis í kjölfar þess að hann birti myndband á samfélagsmiðlum þar sem hann sagðist „elska“ og „skilja“ fólkið sem réðst á þinghúsið.
Á þeim tíma var Trump meðal þeirra sem flestir fylgdu á Twitter eða rúmlega 88 milljónir notenda.
Facebook og Instagram lokuðu einnig á hann í kjölfar árásarinnar og er enn lokað á hann hjá þessum samfélagsmiðlum.
Hann stofnaði því samfélagsmiðilinn Truth Social til að geta tjáð sig eins og hann vill. Hann virkar nokkurn veginn eins og Twitter en á Truth Social deila notendur „sannleika“ í stað „tísts“.
Gagnrýnendur segja að Truth Social eigi í vandræðum vegna útbreiðslu hatursræðu og lyga. Hópar, sem styðja samsæriskenninguna QAnon, eru áberandi á miðlinum.