Því er haldið fram í frétt á Mannlífi í kvöld að það sé staðfest að Guðlaugur Þór Þórðarson ætli í framboð gegn sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, á landsfundi flokksins sem haldinn verður dagana 4. – 6. nóvember næstkomandi.
„Ákvörðun um framboðið var tilkynnt rétt áðan á heimili Guðlaugs Þórs í Foldunum í Reykjavík. Þangað var innsti kjarni stuðningsmannahóps Guðlaugs Þórs boðaður kl. 20 í kvöld. Foringjar Hulduhersins voru mættir til fundarins,“ segir í frétt Mannlífs.
Í fréttinni er tilgreindur svonefndur hulduher Guðlaugs Þórs, sem vinni að framboði hans, og eru leiddar líkur að því að styrkur hópsins sé ekki síðri en styrkur stuðningsmanna Bjarna.