Travelshift hefur ráðið til starfa þau Helga Pál Helgason og Helgu Ingimundardóttur. Helgi Páll tekur við starfi forstöðumanns gervigreindar (e. Head of AI) og Helga sem yfirmaður rannsókna á sviði gervigreindar (e. Head of AI Research).
Helgi Páll lauk doktorsprófi í almennri gervigreind frá Háskóla Reykjavíkur árið 2013. Þá lauk hann B.Sc. og M.Sc. í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Helgi Páll hefur mjög víðtæka reynslu á sviði gervigreindar og hugbúnaðarþróunar. Hann starfaði síðast sem CTO hjá Activity Stream og þar áður hjá Vodafone og Kaupþingi.
Störf Helga Páls hafa hlotið ýmsar viðurkenningar. Hann hlaut “Kurzweil Best AGI Idea” verðlaunin á AGI ráðstefnunni árið 2012. Jafnframt hlaut Activity Stream viðurkenninguna “Best AI/Machine Learning Startup” frá Nordic Startup Awards árin 2018 og 2019 undir stjórn Helga.
,,Ég er mjög spenntur að fá að koma að áframhaldandi uppbyggingu á gervigreind í ferðatækni hjá Travelshift og að fá tækifæri til að vinna með fyrirtæki sem er frábært í því að ná árangri og að laða til sín úrvals fólk á öllum sviðum. Svo elska ég líka að ferðast, sjá nýja staði og upplifa nýja hluti,“ segir Helgi Páll.
Helga lauk doktorsprófi í reikniverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2016. Þá lauk hún B.Sc.í stærðfræði við Háskóla Íslands árið 2008 og M.Sc. í reikniverkfræði árið 2010. Undanfarin ár hefur Helga starfað sem gagnasérfræðingur hjá CCP Games og vísindakona hjá raðgreiningardeild Íslenskrar erfðagreiningar.
„Ég er mikill heimshornaflakkari og hef heimsótt hátt í 50 lönd í sex heimsálfum. Ég þekki því vel hvað það krefst mikils undirbúnings að skipuleggja ferðalög. Það eru því mikil forréttindi fyrir mig að fá tækifæri til að samtvinna sérhæfingu mína í gervigreind með mínu helsta áhugamáli og einfalda túristum að ferðast og upplifa heiminn,“ segir Helga.