Á fundi ríkisstjórnarinnar í kvöld verður Truss að reyna að sannfæra ríkisstjórn sína um að hún sé enn með föst tök um valdataumana. The Times segir að leynifundir hafa farið fram að undanförnu meðal þingmanna Íhaldsflokksins þar sem rætt hefur verið um að ýta Truss til hliðar og finna nýjan formann og þar með forsætisráðherra.
The Guardian og Daily Mail segja að orðrómur sé uppi um að allt að 100 þingmenn Íhaldsflokksins styðji nú vantrauststillögu á hendur Truss. Slíka atkvæðagreiðslu verður samkvæmt flokksreglum að bera undir hina svokölluðu 1922 nefnd. The Guardian segir að nefndin fundi á miðvikudaginn og að Graham Brady, formaður hennar, sé andsnúin því að vantrauststillaga verði lögð fram áður en ríkisstjórnin kynnir nýja efnahagsáætlun sína en til stendur að kynna hana 31. október.
Að auki þarf að breyta reglum flokksins til að hægt sé að kjósa um vantraust á Truss því samkvæmt núverandi reglum er ekki hægt að boða til slíkrar atkvæðagreiðslu á fyrsta ári formanns í embætti.
Það er því mikið í húfi fyrir Truss í kvöld. Henni verður að takast að sannfæra ríkisstjórn sína um að hún sé rétta manneskjan til að standa í brúnni og stýra skútunni áfram.