Hópur leiðtoga verkalýðsfélaga innan ASÍ hefur gefið frá sér yfirlýsingu til höfuðs Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, en Ragnar hefur lýst fram framboði sínu til embættis forseta ASÍ. Kallar hópurinn eftir nýjum frambjóðanda sem geti boðið sig fram gegn Ragnari.
Yfirlýsingin birtist hjá Vísi en þar er farið hörðum orðum um Ragnar Þór sem og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar. Sagt er að sé ekki fær um að valda því hlutverki að vera forseti ASÍ – hann sækist í völd og ætli sér að fara með tvo hatta – sem forseti ASÍ sem og sem formaður VR, en í yfirlýsingunni er harðlega gagnrýnt að Ragnar ætli sér að sitja áfram sem formaður VR jafnvel ef hann nær kjöri sem forseti ASÍ.
„Síðastliðin misseri hafa einkennst af heiftarlegum innanbúðarátökum innan ASÍ, sem eiga rætur sínar í valdsækni Ragnars Þórs og hugmyndum hans og Sólveigar Önnu Jónsdóttur um að þar sem þau fari fyrir stærstu félögum ASÍ beri sambandinu að stjórnast af þeirra hugmyndum og vilja.“
Leiðtogahópurinn sem ritar undir yfirlýsinguna segir að þetta sé einfölduð sýn á lýðræðið sem og röng. Æðsta vald ASÍ sé þing sambandsins, ekki formenn aðildarfélaga. Milli þinga fari miðstjórn með ákvörðunarvald og hafi þá skyldu að framfylgja stefnumörkun þingsins. Einstaka formenn geti ekki tekið sér það vald að sniðganga þær ákvarðanir.
„Þessi afstaða til ákvarðanatöku innan ASÍ hefur komið fram opinberlega og á fundum innan hreyfingarinnar þar sem bæði Ragnar Þór og Sólveig Anna hafa ítrekað haft í hótunum og jafnvel gengið á dyr ef annað fundarfólk tekur ekki undir þeirra sjónarmið í stórum málum og smáum þegar í stað.
Nýlegast dæmið birtist þegar Ragnar tilkynnti framboð sitt til forseta ASÍ og hótaði því samtímis að ef hann fengi ekki stuðning í embættið þá myndi hann draga VR og Landssamband verslunarmanna út úr ASÍ, líkt og það væri í hans valdi að taka svo mikilvæga ákvörðun einn. Ragnar Þór sagði sig einnig úr miðstjórn, ásamt Vilhjálmi Birgissyni, þegar hugmyndir þeirra um að skerða framlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði launafólks varð ekki ofan á í upphafi Covid-faraldursins. Þetta er eina tilfellið sem við vitum um að forystumenn í stéttarfélögum gangi á dyr vegna þess að ekki er fallist á tillögur þeirra um að skerða kjör launafólks.“
Segir enn fremur að bæði Ragnar og Sólveig hafi efnt til ágreinings þar sem hann hafi ekki fyrir verið fyrir hendi eða í málum þar sem lítið beri á milli – allt í þeim tilgangi að ná yfirráðum og völdum.
„Sem dæmi má nefna ítrekaðar umræður þeirra um SALEK, líkt og það sé viðfangsefni hreyfingarinnar núna. Í því samhengi er rétt að benda á þá staðreynd að það voru þingfulltrúar á Þingi ASÍ árið 2016 sem slógu SALEK-hugmyndir og umræðu út af borðinu og um það var nokkuð víðtæk samstaða meðal þingfulltrúa.“
Síðasta vetur hafi komið upp mikill ágreiningur innan ASÍ eftir hópuppsögn á skrifstofu Eflingar. Sneri ágreiningurinn að því hvort slík framkvæmd væri réttlætanleg eða ekki. Þar hafi Ragnar Þór og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, þagað þunnu hljóði og ekki komið félagsmönnum Starfsgreinasambandsins og VR til varnar.
„Svo alvarlegt er þetta mál að VR hefur dregið Eflingu fyrir Félagsdóm til að gæta hagsmuna sinna félagsmanna. Ragnar Þór hefur hins vegar aldrei fordæmt uppsögnina og þá niðrandi umræðu um skrifstofufólk sem henni fylgdi. Þvert á móti hefur hann lýsti yfir stuðningi við gerandann í málinu til embættis varaforseta ASÍ. Valdabandalagið er formanni VR mikilvægara en félagsfólk VR.“
Forseti ASÍ þurfi að geta leitt saman ólík sjónarmið og verið trúverðugur talsmaður launafólks gagnvart atvinnurekendum og stjórnvöldum sem og í opinberri umræðu. Það eigi ekki við um Ragnar Þór.
„Hann kann illa á lýðræðislega umræðu, grípur stöðugt til hótana og gengur á dyr ef hann fær ekki sínu fram. Hann hefur ítrekað rakkað ASÍ, starfsfólk þess og kjörna fulltrúa niður og getur því ekki setið í stafni hjá sambandinu eða farið fyrir öflugri skrifstofu þess. Ragnar Þór sækist í völd án þess að greina frá hvað hann vill með þau og til marks um það ætlar hann að sitja með tvo hatta, sem forseti ASÍ og fara um leið fyrir VR.“
Með skilyrðislausum stuðningi við Sólveigu Önnu í hópuppsagnamálinu hafi hann glatað trúverðugleika sínum sem talsmaður launafólks á opinberum vettvangi.
Vonast hópurinn sem undir yfirlýsinguna ritar að annar frambjóðandi stígi fram sem geti leitt fólk saman og hafi áhuga á að vinna fyrir öll aðildarfélöginn og allt launafólk sem undir þau heyri.
„Þegar allt kemur til alls er það launafólk í landinu sem á verkalýðshreyfinguna, ekki einstaklingar sem hafa valist þar til starfa. Við teljum því nauðsynlegt að félagsfólk í stéttarfélögum sem heyra undir ASÍ sé upplýst um þróun mála í aðdraganda þings ASÍ.“
Undir yfirlýsingu kvitta: