Í skýrslunni er varað við því að núverandi peningastefna seðlabankanna geti sent efnahagslíf heimsins inn í efnahagslægð og tímabil kreppuverðbólgu sem muni valda meira tjóni en fjármálakreppan og heimsfaraldur kórónuveirunnar.
„Það er enn nægur tími til að forðast efnahagslægð. Þetta er spurning um pólitískt val og pólitískan vilja,“ sagði Rebeca Grynspan, hjá UNCTAD.
Í skýrslunni kemur fram að hert stefna í fjármála- og peningastefnu í iðnvæddum ríkjunum í bland við eftirköst heimsfaraldursins og stríðið í Úkraínu hafi nú þegar valdið efnahagslegri niðursveiflu sem geri að verkum að ólíklegt sé að mjúk lending náist.
Seðlabankar víða um heim eru byrjaðir að herða peningastefnu sína til að ná tökum á verðbólgunni en hún er víða mun hærri en hún hefur verið áratugum saman.
Nýjustu verðbólgutölur frá evrusvæðinu benda til að verðbólgan muni halda áfram að hækka en á ársgrundvelli mælist hún nú um 10%. Í Bandaríkjunum eru hins vegar teikn á lofti um að verðbólgan hafi toppað og sé nú hægt og rólega á niðurleið.