Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Halldóri að sóttvarnaaðgerðir snerti flestar fjölskyldur, fyrirtæki og stofnanir. „Samfélagið stendur nú frammi fyrir þeirri áskorun að halda nauðsynlegri kjarnastarfsemi gangandi,“ er haft eftir honum.
Hann sagði einnig að víða standi atvinnulífið frammi fyrir því að erfitt sé að tryggja lágmarksmönnun. „Samfélagið og hagkerfið þola ekki að starfsemi grunninnviða í atvinnulífinu stöðvist, jafnvel þótt það sé tímabundið,“ sagði hann.
Vegna manneklu hefur ýmis starfsemi staðið tæpt en til að halda henni gangandi hefur verið sótt um að hluti starfsmanna sé í svokallaðri vinnusóttkví en í henni felst að viðkomandi fá að fara til og frá vinnu en með miklum takmörkunum. Halldór tók fram að enginn starfsmaður, sem er í sóttkví, sé neyddur til vinnu.
Hann sagði að hægt sé að horfa til nágrannalandanna varðandi lausn á þessu en þar sé sóttkví beitt með vægari hætti en hér. „Til dæmis hlýtur að koma til álita að endurskoða hratt og örugglega reglur um beitingu sóttkvíar, þannig að þeir sem eru fullbólusettir og með örvunarskammt fari í smitgát frekar en sóttkví. Sú breyting myndi skipta sköpum,“ sagði hann.