Þetta segir Hanna Katrín í grein í Morgunblaðinu í dag. Hún segir að þar með fari að verða útséð um að ríkisstjórnin ætli að upplýsa um þau ítök sem stórútgerðin hefur í samfélaginu í skjóli pólitískra ákvarðana.
Hún bendir á að fyrir rúmlega ári síðan hafi hún átt frumkvæði að því að Alþingi fæli sjávarútvegsráðherra að vinna skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í öðru atvinnulífi í landinu en sjávarútvegi. Markmiðið hafi verið að veita þjóðinni mikilvægar upplýsingar um ítök stórútgerðarinnar í samfélaginu, ítök sem eru tilkomin vegna nýtingar stórútgerðarinnar á fiskveiðiauðlindinni. „Nýtingar sem ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar berst með kjafti og klóm gegn að verði tímabundin, þvert á vilja yfirgnæfandi meirihluta almennings. Hvað þá að markaðurinn fái að ráða verðinu fyrir aðgang útgerðanna að auðlindinni okkar með sölu heimilda á uppboði,“ segir Hanna Katrín.
Hún segir að vinnan við skýrsluna hafi sannarlega farið af stað en af einhverjum ástæðum hafi verið stigið á bremsuna innan ráðuneytisins og málið tafið. Þegar skýrslan hafi loks verið birt, um 18 mánuðum eftir að skilafrestur rann út, hafi lítið bitastætt verið að finna í henni. Ekki hafi verið kortlagt hvernig stórútgerðirnar hafa nýtt gróða sinn til að fjárfesta í flutningafyrirtækjum og fjölmiðlum, fasteignum og tryggingafélögum, heilbrigðisgeiranum, matvælamarkaði, ferðaþjónustu, veitingastöðum og fleiri geirum.
„Þessi leyndarhyggja vakti furðu flestra og því ákvað ég að forvitnast um það hjá nýjum ráðherra sjávarútvegsmála hvað hefði eiginlega gerst. Hvers vegna upplýsingar um fjárfestingar 20 stærstu útgerðarfélaganna sem voru í upphaflegum skýrsludrögum hefðu verið felldar út, á grundvelli hvaða ráðgjafar ráðuneytið hafi talið óheimilt að birta umbeðnar upplýsingar og hvort nýi ráðherrann væri sammála því mati. Ráðherra sagðist ekki geta svarað þessum spurningum. Ekki einu sinni því hvort hún væri sammála mati fyrrverandi ráðherra,“ segir Hanna Katrín og bætir við að það sé leitt hversu ráðalaus Svandís sé.
„Mér er það því ljúft að minna á að þegar hún tók við lyklunum sem nýr sjávarútvegsráðherra spurði hún fráfarandi ráðherra hvort hún mætti hringja í vin. Sá möguleiki virðist því miður hafa gleymst,“ segir hún.
Hún segir að það sé kannski huggun í huga einhverra að í svari Svandísar komi fram að til standi að skipa nefnd um aukið gegnsæi í rekstri stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna. „Sennilega munu þó fleiri taka eftir kaldhæðninni í þessu leikriti,“ segir hún að lokum.