fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Kvennabylting í kortunum í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins

Eyjan
Sunnudaginn 23. janúar 2022 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í áranna rás hefur það loðað við Sjálfstæðisflokkinn að erfiðra sé fyrir konur að ná frama innan hans en í öðrum flokkum. Undanfarin ár hefur þó rofað verulega til í þeim efnum. Fyrst má nefna framgang ungra kvenna eins og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem eru að sigla inn í sitt annað kjörtímabil sem ráðherrar flokksins. Þá hafa aldrei fleiri konur verið í þingflokki Sjálfstæðismanna en sjö af sextán þingmönnum eru konur eða 44%.

Í ljósi þessarar þróunar ráku margir upp stór augu þegar ráðið var í tvær þungavigarstöður innan flokksins í byrjun mánaðarins. Tryggvi Másson var ráðinn framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðismanna og Sigurbjörn Ingimundarson var ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri flokksins. Ráðningarnar gerðu það að verkum að aðeins ein kona, Þórdís Kolbrún varaformaður, er með titil í stjórnkerfi flokksins. Greindi Innherji frá því að titringi gætti innan flokksins vegna þessa.

En blikur eru á lofti og svo gæti farið að framgangur kvenna á sveitastjórnarstigi muni sefa þessar óánægjuraddir.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur undanfarið kjörtímabil haldið á bæjarstjóraembættum í öllum sveitarfélögunum í kringum höfuðborgina. Eins og komið hefur fram undanfarnar vikur hyggjast fjórir af þessum fimm bæjarstjórum ekki gefa kost á sér áfram. Það eru þeir Ármann Kr. Einarsson í Kópavogi, Gunnar Einarsson í Garðabæ, Haraldur Sverrisson í Mosfellsbæ og Ásgerður Halldórsdóttir á Seltjarnarnesi. Þá hefur oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Eyþór Arnalds, ákveðið að hætta í pólitík.

Eini bæjarstjóri Sjálfstæðismanna, á þessu svæði, sem hyggst gefa kost á sér til endurkjörs er Rósa Guðbjartsdóttir í Hafnarfirði og kæmi það engum á óvart ef hún fengi góða kosningu.

Mikil endurnýjun er því að eiga sér stað og svo gæti hreinlega vel farið að allir oddvitar Sjálfstæðismanna á höfuðborgarsvæðinu verði konur.

Hildur ein í framboði og Ásdís undir feldi

Í Reykjavík er Hildur Björnsdóttir sú eina sem hefur boðið sig fram til oddvita og talið er æ ólíklegra að úr þessu fái hún mótframboð sem gæti velgt henni undir uggum.

Í Garðabæ hafa Áslaug Hulda Jónsdóttir og Sigríður Hulda Jónsdóttir þegar gefið kost á sér í oddvitasætið. Framboð Áslaugar Huldu kemur engum á óvart enda hefur setið í bæjarstjórn síðan 2010, gegnt embætti forseta bæjarstjórnar auk fjölmargra trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hún þykir því afar sigurstrangleg þó að öflug mótframboð hafi borist frá Almari Guðmundssyni, framkvæmdastjóra og bæjarfulltrúa sem og Sigríðu Huldu sem hefur verið bæjarfulltrúi frá árinu 2014 og hefur reynslu af því að starfa sem forseti bæjarstjórnar.

Í Kópavogi er leitað logandi ljósi að næsta bæjarstjóraefni flokksins og þar hefur nafn Ásdísar Kristjánsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, ítrekað verið nefnt. Ásdís hefur ekkert gefið út varðandi fyrirætlanir sínar og er sögð liggja undir hinum margumtalaða feldi. Ljóst er að að framboð hennar yrði hvalreki fyrir Sjálfstæðismenn í Kópavogi.

Á Seltjarnarnesi hafa tvær öflugar konur blandað sér í oddvitaslaginn. Ragnhildur Jónsdóttir, heilsuhagfræðingur og varabæjarfulltrúi, og Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur. Heimildarmenn Orðsins telja Ragnhildi líklegri til að veita Magnúsi Erni Guðmundssyni, formanni bæjarráðs, keppni um oddvitasætið.

Í Mosfellsbæ hafa síðan tveir frambjóðendur lýst yfir framboði sínu í oddvitasætið en það eru bæjarfulltrúarnir Ásgeir Sveinsson, framkvæmdastjóri og Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir, kennari. Þau skipuðu annað og þriðja sæti á síðasta framboðslista Sjálfstæðisflokksins og segja heimildirmenn Orðsins að baráttan milli þeirra verði jöfn og spennandi.

Það eru því nokkrar líkur á alslemmu kvenna hjá Sjálfstæðisflokknum á næstunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“