Samkvæmt frétt New York Times þá hyggst Pentagon láta hart mæta hörðu ef Rússar ráðast á Úkraínu. Ekki verður um hefðbundinn stríðsrekstur að ræða þar sem bandarískar hersveitir verða sendar á átakasvæði. Þess í stað munu Bandaríkin og bandamenn veita Úkraínu gríðarlega mikinn stuðning til að uppreisnarhópar Úkraínumanna geti barist á móti Rússum.
Blaðið segir að þessi hugmynd hafi lengi verið á lofti og hafi Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Joe Biden, sett saman sérstakan vinnuhóp sem sé að undirbúa viðbrögð við ágengni og hugsanlegum árásum Rússa á Úkraínu. Í hópnum eru til dæmis fulltrúar frá varnarmálaráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og hinna ýmsu leyniþjónustustofnana.
Með þessu auk boðaðra refsinga á efnahagssviðinu gagnvart Rússum ef þeir ráðast á Úkraínu er ætlunin að gera Rússum ljóst að þeir muni mæta svo mikilli mótstöðu í Úkraínu að þeim sé vænlegast að sleppa því að ráðast á landið. Þessi taktík, sem nefnist „porcupine strategy“ (broddgalta taktíkin), hefur verið þekkt innan hersins árum saman og hefur verið notuð áður með góðum árangri.
Í þessari áætlun felst að uppreisnarhópar í Úkraínu, sem munu berjast gegn Rússum, muni fá margvíslegan vopnabúnað frá Bandaríkjunum, þar á meðal Stingerflaugar. Einnig verður komið upp öruggum svæðum þar sem úkraínskir hermenn og uppreisnarmenn geta leitað skjóls ef Rússar ráðast á þá. Slík svæði gætu til dæmis verið í vesturhluta Úkraínu eða í Rúmeníu ef Rússar réðust af fullum þunga á alla Úkraínu. Frá þessum svæðum verður hægt að stýra árásum á Rússa sem munu reynast þeim dýrkeyptar.
Bandaríkin beittu svipaðri aðferð þegar þeir studdu baráttu Afgana gegn sovéska innrásarliðinu á síðustu öld.