Svíum hefur lengst af tekist að lifa nokkurn veginn í sátt og samlyndi við Rússa þrátt fyrir að hafa ítrekað orðið fyrir áreiti af þeirra hálfu. Má þar nefna ótal ferðir sovéskra kafbáta um sænska skerjagarðinn á síðustu öld.
Í gær var ákveðið að auka viðbúnað sænska hersins og þá sérstaklega á Gotlandi. Þar hafa hermenn nú verið sendir á götu út og annast gæslu á ýmsum stöðum. „Við sjáum vaxandi aðgerðir nærri Svíþjóð,“ sagði talsmaður sænska hersins í samtali við Sænska ríkisútvarpið. Hann sagði að flugvöllurinn og höfnin væru mjög mikilvægir innviðir fyrir samfélagið á Gotlandi og það sé mikilvægt að sýna íbúum á Gotlandi og annars staðar að her landsins sé virkur og bregðist við þeim aðstæðum sem upp koma. Hann lagði áherslu á að ekki sé talið að bein hætta sé á innrás Rússa en það sé skynsamlegt að vera við öllu búin.
Í viðræðum Rússa, Bandaríkjamanna og NATO að undanförnu hafa Rússar krafist þess að NATO tryggi að Úkraína, Finnland og Svíþjóð fái aldrei aðild að NATO. Þessari kröfu hafa Bandaríkin og NATO hafnað.