fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

„Núna er hluti af íslensku sálinni geymdur í lokaðri geymslu í Kaupmannahöfn“ segir Lilja

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 13. janúar 2022 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gamall ágreiningur Íslendinga og Dana hefur nú blossað upp á nýjan leik. Hann snýst um íslenskan menningararf sem er geymdur í Danmörku en Íslendingar vilja gjarnan fá lánaðan til langs tíma eða fá afhentan að fullu.

Eitthvað á þessa leið hefst umfjöllun Danska ríkisútvarpsins (DR) um íslensku handritin sem eru geymd í Kaupmannahöfn.

Bent er á að nýlega hafi Norðmönnum verið neitað að fá handrit að láni og hafi það hrundið af stað umræðu á Íslandi um íslensku handritin sem eru varðveitt í Kaupmannahöfn.

Norðmenn fóru fram á að fá tólf handrit, sem segja sögu norsks samfélags fyrr á öldum, afhent frá Dönum. Vildu Norðmenn að handritin yrðu hluti af varanlegri sýningu á Þjóðarbókasafninu í Osló. Árni Magnússon, handritasafnari, færði Kaupmannarhafnarháskóla handritin að gjöf árið 1730. Kaupmannahafnarháskóli hafnaði því að afhenda sjö handrit en Konunglega bókasafnið féllst á að lána Norðmönnum fimm handrit til sýningarinnar að því er Norska ríkisútvarpið sagði í lok síðasta árs.

Rætt var við Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í þættinum Kulturen á P1 rás DR nýlega. Þar sagði hún það sterka sannfæringu sína að handritin eigi að vera á Íslandi.

Frá því þegar fyrstu handritin komu heim árið 1971. Danska varðskipið Vædderen liggur við bryggju, skátar standa heiðursvörð og sjóliðar af Vædderen halda á pökkum með handritum, Flateyjarbókar og Konungsbókar Eddukvæða.  Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Í heildina er um 3.000 handrit að ræða sem Árni Magnússon safnaði. 1965 sömdu Danir og Íslendingar um skiptingu handritanna. Um 1.400 eru varðveitt í Kaupmannahöfn en restin á Íslandi. Þau elstu eru frá því um 1150. Vísindamenn telja að elstu handritin séu varðveitt í Kaupmannahöfn. Árið 2009 voru handritin tekin á Heimsminjaskrá UNESCO.

DR bendir á að á næsta ári verði Hús íslenskra fræða tilbúið og í tengslum við það vilji Lilja fá fleiri handrit afhent en í húsinu verður sérstök deild fyrir handritin. „Handritin eru sál Íslands og núna er hluti af íslensku sálinni geymdur í lokaðri geymslu í Kaupmannahöfn. Bókmenntir á íslensku gegna mikilvægu hlutverki fyrir Íslendinga sem þjóð. Þjóð sem varðveitir ekki tungumálið sitt hættir að vera þjóð eða verður önnur þjóð,“ sagði Lilja.

Samningurinn frá 1965

Samkvæmt samningi þjóðanna frá 1965 um skiptingu handritanna er kveðið á um að hann sé endanlegur og að Íslendingar fái aldrei aftur afhent neitt sem telst til íslenskra menningarverðmæta frá Dönum.

Því veltir DR því upp hvort Lilja sé að brjóta þetta ákvæði samningsins þegar hún fer fram á að fá fleiri handrit afhent. Hún sagði í samtali við Kulturen að nú hafi tímarnir breyst og að sýn okkar á fortíðina breytist stöðugt. Auk þess standi Danir ekki við sinn hluta samningsins. Í honum sé kveðið á um að bæði löndin eigi að leggja sitt af mörkum við rannsóknir á handritunum. Kaupmannahafnarháskóli hafi hins vegar dregið úr rannsóknum á þeim en Íslendingar hafi styrkt sínar rannsóknir. „Ég tel að það sé hægt að færa rök fyrir að Kaupmannahafnarháskóli og dönsk yfirvöld uppfylli ekki ákvæði samningsins,“ sagði hún.

Bertel Haarder, sem var menntamálaráðherra 1986 þegar þjóðirnar sömdu um að báðar skyldu þær sinna rannsóknum á handritunum, tekur undir sjónarmið Lilju. Hann er þingmaður Venstre, talsmaður flokksins í málum er varða Norræna samvinnu og forseti Norðurlandaráðs. „Íslenski ráðherrann hefur alveg rétt fyrir sér í að Danir hafi ekki staðið við samninginn því svo fáir starfi við rannsóknir og kennslu og við verðum að bæta úr því. Mér finnst að Danir eigi að standa við sinn hluta samningsins,“ sagði hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?