Hann skýrði frá þessu á Facebooksíðu sinni. Þar segir hann að margir hafi sett sig í samband við hann og óskað eftir að hann leggi flokknum lið við að styrkja stöðu jafnaðarmanna í bænum sem hafi verið stjórnað af Sjálfstæðisflokknum síðustu átta ár. Hann staðfestir þar umfjöllun DV frá í gær um væntanlegt framboð hans.
Hann segist hafa ákveðið að verða við þessu kalli og sé þess fullviss að með góðri liðsheild, skýrri stefnu og markvissum vinnubrögðum geti Samfylkingin orðið stærsti flokkur bæjarins. „Fái ég stuðning flokksfélaga minna í prófkjörinu, þá stefni ég óhikað að því að Samfylking vinni góðan sigur í bæjarstjórnarkosningum í maí og tvöfaldi bæjarfulltrúatölu sína, þ.e. úr tveimur í fjóra. Og að afloknum kosningum geti Samfylkingin í góðu samstarfi við aðra flokka tekið við forystu um stjórn bæjarins,“ segir hann.
Hann segir að næg verkefni séu fram undan í Hafnarfirði eftir átta ára þreytulega valdatíð Sjálfstæðisflokksins og það kalli á ný vinnubrögð þar sem verkin þurfi að tala í samráði við ólíka hópa og einstaklinga.