Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að endurupptöku hafi verið krafist í tveimur sakamálum á þeim grundvelli að Jón Finnbjörnsson hafi dæmt í þeim í Landsrétti. Slær Endurupptökudómur því föstu í úrskurði sínum að það sama eigi við um Jón og Arnfríði Einarsdóttur en dómur yfirdeildar Mannréttindadómstólsins fjallar um hana. Í því máli féllst Mannréttindadómstólinn á að ríkið hefði brotið gegn 6. grein Mannréttindasáttmálans þegar Arnfríður var skipuð dómari við Landsrétt.
Meðal þeirra lagaskilyrða sem þarf að uppfylla til að hægt sé að endurupptaka mál er að ný gögn þurfa að hafa komið fram eða upplýsingar sem má ætla að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu máls ef þær hefðu komið fram áður en dómur féll.
Endurupptökudómur telur að niðurstaða yfirdeildar Mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu teljist til nýrra gagna í málunum tveimur og á þeim grundvelli var endurupptaka málanna heimiluð.
„Þessir úrskurðir gefa góð fyrirheit um að íslenskir dómstólar fari að láta af því viðhorfi að telja það hlutverk sitt að passa upp á kerfið,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður, í samtali við Fréttablaðið en hann er lögmaður endurupptökubeiðenda í málunum tveimur. Hann sagði mjög ánægjulegt að dómur yfirdeildarinnar fái þetta vægi og sé nú orðinn að virku dómafordæmi hér á landi.