Svona hefst leiðari Fréttablaðsins í dag en hann ber fyrirsögnina „Óttastjórnun Samherja“ og er skrifaður af Elínu Hirst.
Eins og ljóst má vera af innganginum þá er það Samherji og mál tengd fyrirtækinu sem eru til umfjöllunar.
„En hér á landi beinist athyglin ekki að meintum stórafbrotum þar sem fyrirtækið er grunað um að hafa nýtt sér ágóða af þjóðarauðlind Íslendinga til að skara eld að eigin köku, á kostnað almennings í Namibíu. Á Íslandi snýst umræðan um eitthvað allt annað,“ segir hún og bendir á að hér á landi séu nokkrir blaðamenn með stöðu grunaðra í sakamáli sem snúist um byrlun og þjófnað á farsíma. Þetta sé einhverskonar smjörklípuafsprengi spillingarmálsins í Namibíu. Íslenska þjóðin hljóti að vera meðvituð um að það mál er til rannsóknar í Namibíu og hjá héraðssaksóknara hér á landi.
„Opinberlega hefur verið upplýst að Samherji heldur úti skipulögðum ofsóknum gagnvart uppljóstrurum og fjölmiðlamönnum sem hafa dirfst að benda á þau stórfelldu afbrot sem fyrirtækið er grunað um. Sjálfur fjármálaráðherra landsins gengur fram fyrir skjöldu og tekur þátt í umræðu um málið þar sem hann ver mjög þá ákvörðun að blaðamennirnir sem staðið hafa í stafni við að upplýsa um Samherjamálið skuli hafa fengið réttarstöðu grunaðra í málinu,“ segir Elín.
Hún bendir á að lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra liggi undir ámæli um að vera ekki faglegur í því sem hann er að gera í þessu máli, hann gangi erinda Samherja.
„Er Samherji virkilega orðinn svo stórt og valdamikið fyrirtæki að um það gildi önnur lögmál en annað athafnalíf í landinu? Í þeim byggðarlögum þar sem Samherji hefur tögl og hagldir segja kunnugir að fyrirtækið haldi umræðu og skoðanaskiptum í heljargreipum. Enginn þori að gagnrýna fyrirtækið því það gæti þýtt stöðu- og tekjumissi fyrir viðkomandi eða einhvern úr frændgarðinum. Fólk er óttaslegið og kýs að þegja,“ segir hún að lokum.