fbpx
Laugardagur 16.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hlustum á Píratana

Eyjan
Sunnudaginn 25. september 2022 17:30

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við stóráföll og óhæfuverk sem ekki eiga sér hliðstæðu er hætta á að viðbrögð stjórnvalda verði ofsafengin. Dæmi um þetta eru svokölluð ættjarðarlög eða Patriot Act vestanhafs sem sett voru í kjölfar árásar hermdarverkamanna á tvíburaturnana í New York borg 11. september 2001. Að mati margra málsmetandi lögfræðinga í Vesturheimi var farið offari í eftirliti með borgurunum á grundvelli þeirra laga og vegið gróflega að friðhelgi einkalífs. Ný tækni sem nú er fram komin gerbreytir líka möguleikum stjórnvalda til að hafa eftirlit með borgurunum. Á okkar tímum er hægt að hlera og skoða samskipti með hátækni sem höfundar stjórnarskrárákvæða um friðhelgi einkalífs hefðu aldrei getað ímyndað sér. En frá aldamótum hefur umræðan um skerðingu mannréttinda í þágu almannaöryggis reglulega skotið um kollinum víðs vegar á Vesturlöndum — ekki hvað síst í kjölfar illvirkja eða tilrauna til slíkra misgerða.

Frumvarp í bígerð

Dómsmálaráðherra greindi frá því vikunni sem leið að hann hygðist leggja fram frumvarp um auknar heimildir lögreglu til eftirlits með borgurunum en þar mun vera átt við beitingu þvingunarúrræða án undangengins dómsúrskurðar. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að þvingunaraðgerðir fela eðli máls samkvæmt alltaf í sér skerðingu mannréttinda; friðhelgis einkalífs, persónufrelsis og friðhelgis eignarréttar. Því skiptir höfuðmáli að úrræðunum sé beitt af mikilli varfærni og undir ströngu eftirliti dómstóla og eftir atvikum líka annarra stofnana. Öðruvísi er ekki unnt að tryggja virka vernd mannréttinda en hún er talin til hugtaksskilyrða réttarríkis.

Fréttir af fyrirhuguðu frumvarpi dómsmálaráðherra komu strax í kjölfar viðbúnaðar lögreglu vegna meintra fyrirhugaðra illvirkja sem var aðalfréttaefni síðustu viku en ráðherra gat þess þó að umrætt frumvarp kæmi ekki fram sem sérstakt viðbragð við því máli. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði í frétt Vísis í fyrradag það í meira lagi varhugavert að auka heimildir lögreglu til eftirlits með borgununum. Lögregla hefði nú þegar mjög ríkar rannsóknar- og valdbeitingarheimildir en aftur á móti væri afar takmarkað eftirlit með „beitingu lögreglu á mjög matskenndum heimildum sem mjög auðvelt er að misbeita,“ eins og hún orðaði það og bætti við að sér fyndist algjörlega ótækt að auka þessar heimildir án þess að tryggja að eitthvert eftirlit yrði með beitingu þeirra:

„Með forvirkum rannsóknarheimildum er átt við heimildir til að hafa eftirlit með fólki sem hefur ekki gert neitt af sér. Og mjög víðtækar heimildir til mats á því hvenær er nauðsynlegt að fylgjast með almennum borgurum og það á sannarlega við okkur öll.“

Quis custodiet ipsos custodes?

Fyrir tvö þúsund árum orðaði rómverska skáldið Júvenalis grundvallarspurningu sem kviknar í þessu sambandi: Quis custodiet ipsos custodes? — Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum? — Hér er eftirlitið nefnilega óvirkt líkt og samflokkskona Arndísar Önnu, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, benti á í viðtali við Ríkisútvarpið á fimmtudaginn var en Þórhildur Sunna er þingmaður og mannréttindalögfræðingur. Hún segir ekki ganga að auka valdheimildir lögreglu nema komið verði á fót sjálfstæðu eftirliti með störfum hennar.

Þórhildur Sunna nefndi sem dæmi að ríkissaksóknari ætti lögum samkvæmt að hafa eftirlit með hlerunum lögreglu en staðið hefðu „furðulegar deilur“ milli hans og embættis ríkislögreglustjóra um gögn um hleranir og eftirlitinu því ekki verið sinnt.

Margt mætti nefna í sambandi við þvingunarráðstafanir almennt en rétt er að víkja sérstaklega að hlerunum. Þessu tiltekna inngripi í friðhelgi einkalífs borgaranna er að jafnaði beitt án vitundar þess sem úrræðið beinist að. Í ljósi þess hefur Mannréttindadómstóll Evrópu talið þörf á virkum raunhæfum úrræðum til að tryggja vernd friðhelgis einkalífs þess sem verður fyrir hlerun. Dómstóllinn hefur sérstaklega kveðið á um það í dómum sínum að grípa verði til ráðstafana til að vernda einkasamtöl lögmanna og skjólstæðinga þeirra svo dæmi sé tekið. Þá hefur hann í oft í dómum sínum vikið að því að tryggja þurfi með raunhæfum og árangursríkum hætti að lögum um þetta efni sé fylgt og eftirlitið verði að vera framkvæmt af öðru og ótengdu stjórnvaldi en því sem hleraði.

Í máli Iordachi o.fl. gegn Moldóvu fyrir Mannréttindadómstólnum háttaði svo til að kærendur töldu 8. gr. Mannréttindasáttmálans hafa verið brotna þar sem raunveruleg hætta væri á að símtæki þeirra væru hleruð en kærendur voru allir félagsmenn í samtökum mannréttindalögfræðinga. Fyrir dóminn voru lögð tölfræðigögn sem sýndu að 99,24% allra beiðna um hlerun á árunum 2007–2009 höfðu verið samþykktar. Að mati Mannréttindadómstólsins var þetta óeðlilega hátt hlutfall og þótti sanna að varfærni skorti við beitingu úrræðisins.

Þessi dómur er sérlega áhugaverður fyrir þá sök að Mannréttindadómstóllinn komst að svo óyggjandi niðurstöðu þrátt fyrir að eiginlegt brot hafi ekki verið til umfjöllunar — heldur aðeins ótti tiltekinna lögmanna við að verða hleraðir í ljósi opinna og ofnotaðra lagaheimilda um hlerun.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þáverandi þingmaður Pírata, benti á það í þingræðu 2015 að hér á landi væri hlutfallið sambærilegt og meira að segja hærra, eða 99,31%. Um var að ræða 720 beiðnir á undangengnum misserum en aðeins fimm var hafnað. „Það er eiginlega þannig að lögregla biður um heimild og fær hana,“ sagði Helgi Hrafn um málið á sínum tíma.

Eftirliti ekki verið sinnt

Við rannsókn meintra efnahagsbrota í kjölfar falls viðskiptabankanna 2009 virðist sem sérstakur saksóknari hafi beitt hlerunum kerfisbundið í tengslum við skýrslutökur vitna og sakborninga. Frá því í júlí 2009 og fram í desember 2012 lagði embætti sérstaks saksóknara fram alls 116 beiðnir um hleranir í héraðsdómi og fékk þær allar samþykktar. Á sama tíma var eftirlit ríkissaksóknara með þessum úrræðum ekki til staðar. Um það fórust Valtý Sigurðssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, svo orð í grein í Tímariti lögfræðinga:
„Það er alvarlegt mál að embætti ríkissaksóknara, sem sérstaklega er falið með lögum að sinna þessu mikilvæga eftirlitshlutverki, skuli ekki vera í stakk búið til að sinna því. Með því er harkalega vegið að réttaröryggi borgaranna á þessu sviði. Þessi brotalöm á eftirlitinu gerir því auknar kröfur á hendur þeim sem úrræðinu beita. Því er mikilvægt að til séu sérstakar verklagsreglur á þessu sviði, auk þess sem gera verður kröfur um varkárni við beitingu úrræðisins.“

Og í grein í sama tímariti 2014 drógu lögmennirnir Jóhannes Sigurðsson og Þórir Júlíusson í efa að skilyrðum um ríka almanna- og einkahagsmuni hafi verið fullnægt í umræddum málum. Greinin byggði á rannsókn þeirra á hluta úrskurða héraðsdómara sem heimiluðu hlerun á grundvelli beiðna frá sérstökum saksóknara. Þeir einkahagsmunir sem þarna hafi verið í húfi hafi verið hagsmunir ógjaldfærra fjármálafyrirtækja í slitameðferð og kröfuhafa þeirra. Almannahagsmunirnir hafi aftur á mótið lotið að því að meint brot í aðdraganda falls bankanna vörðuðu almenning miklu. Greinarhöfundar horfðu til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstólsins en þar var litið til yfirvofandi hættu, skerðingar á hagsmunum og nauðsyn vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnahagslegrar farsældar þjóðarinnar. Erfitt væri að sjá að nokkurt þessara skilyrða hafi verið uppfyllt.

Í Noregi og Danmörku er eftirlit með þessum málum mun virkara en hér. Þar ytra er þeim sem aðgerð beinist að skipaður sérstakur lögmaður sem gætir hagsmuna viðkomandi og starfar án hans vitneskju (enda þarf hlerun eðlilega að eiga sér stað með leynd ella missti hún marks). Þessi leið hefur ekki verið farin hér heldur ríkissaksóknara falið eftirlit með beitingu hlerana en það eftirlit er ekki til staðar líkt og þingmaður Pírata benti á.

Á hinum Norðurlöndunum eru einnig starfandi sérstakar stofnanir sem hafa eftirlit með lögreglu og leyniþjónustu. Í frétt Ríkisútvarpsins fyrir helgi var bent á að nefnd um eftirlit með lögreglu sem hér starfi hafi ekki gefið út ársskýrslu frá árinu 2019 þrátt fyrir að kveðið sé á um í reglugerð að slíkt skuli gert á hverju ári og niðurstöður birtar opinberlega á vefsvæði nefndarinnar.

Hugtaksskilyrði réttarríkis

Í áðurnefndri frétt Vísis fyrir helgi var rætt við Sigurð G. Guðjónsson hæstaréttarlögmann sem benti á að lögregla hefði nú þegar mjög rúmar og víðtækar heimildir til að fylgjast með fólki. Lögregla mætti hlera síma, hlera bifreiðar og setja hlustunarbúnað í húsnæði. Það ætti jafnvel við um farartæki og fasteignir sem ekki væru í eigu hins grunaða. Hann sæi engin rök fyrir því að lögreglu yrðu veittar ríkari heimildir en hún hefði nú þegar til eftirlits með borgurunum. Fyrir hálfu níunda ári birtist á Vísi birtist grein Sigurðar þar sem hann gagnrýndi harðlega frjálslega beitingu þvingunarúrræða og hvernig farið hefði verið offari við rannsókn sakamála undangengin ár. Í greininni kom hann fram með þá hugtaksskilgreiningu á réttarríkinu að þar byggju borgararnir við þá vissu að stjórnvöld jafnt sem dómstólar beittu úrlausnarvaldi sínu með óhlutdrægum hætti, innan hæfilegs tíma og í samræmi við lög sem birt hefðu verið áður en ágreiningur reis.

Virkt eftirlit með beitingu þvingunarúrræða er í reynd prófsteinn á það hvort Ísland teljist réttarríki. Rétt er að taka undir með þingmönnum Pírata sem virðast hafa dýpri skilning á grundvallarmannréttindum en fulltrúar annarra flokka á Alþingi. Nauðsynlega þarf að koma á virku eftirliti með beitingu þvingunarúrræða. Fyrr en það verður gert er með öllu ótímabært að ræða auknar heimildir lögreglu sem fela í sér skerðingar á mannréttindum borgaranna og gildir þá einu hversu göfugur tilgangurinn kann að vera.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils

Ágúst Borgþór skrifar: Umsátur á Vopnafirði – Gæsluvarðhald og nálgunarbann eftir umfjöllun fjölmiðils
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Hápunktur sjúklingsferilsins
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!