Rannveig Einarsdóttir hefur verið ráðin nýr sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Eiríkur Björn Björgvinsson hefur verið ráðinn í stöðu sviðsstjóra nýs sameinaðs sviðs menningar, íþrótta- og tómstunda.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að borgarráð hafi samþykkti ráðningarnar á fundi sínum í morgun. Reykjavíkurborg auglýsti lausar stöður tveggja sviðsstjóra í ágúst síðastliðnum og bárust 18 umsóknir um stöðu sviðsstjóra velferðarsviðs, og 56 umsóknir um stöðu sviðsstjóra menningar, íþrótta- og tómstundasviðs. Níu drógu umsóknir til baka. Hæfnisnefndir sem skipaðar voru um hvora stöðu skiluðu af sér tillögur um ráðningar sem lagðar voru fyrir borgarráð.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í minnihluta sátu hjá við afgreiðslu beggja ráðninga en gerðu þó enga athugasemd við ráðningaferlinu varðandi velferðarsviðið. Hins vegar ákváðu fulltrúar flokksins að leggja fram bókun varðandi ráðningaferlið á hinni stöðunni en í henni er fullyrt að hæfir einstaklingar hafi ekki verið boðaði í viðtal vegna ráðningarinnar í umrætt starf.
,,Athugasemdir vegna vinnubragða við ráðningarferli sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs, sem bókaðar voru fyrr í ferlinu, eru ítrekaðar. Athygli vekur að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru nokkrir umsækjendur með afar víðtæka og farsæla stjórnunarreynslu á sviði íþrótta-, tómstunda- og/eða menningarmála, ekki boðaðir í viðtal vegna ráðningar í umrætt starf.
Nýjum sviðsstjóra er óskað velfarnaðar í störfum sínum.“
Frá Hafnarfirði til Reykjavíkurborgar
Rannveig Einarsdóttir er með B.A. gráðu í félagsfræði og nám til starfsréttinda í félagsráðgjöf og meistaragráðu, MPA í opinberri stjórnsýslu, hvoru tveggja frá Háskóla Íslands. Hún starfaði á árunum 1986-1989 sem félagsmálastjóri hjá Ísafjarðarkaupstað og félagsráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ og Grindarvíkurbæ. Þá gegndi hún stöðu yfirfélagsráðgjafa fjölskyldu- og félagsþjónustu Keflavíkur og Reykjanesbæjar í 22 ár og var á þeim tíma einnig staðgengill félagsmálastjóra og framkvæmdastjóri barnaverndar Reykjanesbæjar. Undanfarin 11 ár hefur Rannveig gegnt stöðu sviðsstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs og leiðtoga velferðarþjónustu Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Velferðarsvið ber ábyrgð á velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar þ.m.t. almennri félagsþjónustu og sértækri þjónustu við fatlað fólk, aldraða og börn og fjölskyldur þeirra. Velferðarsvið starfar með velferðarráði og barnaverndarnefnd. Hlutverk sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar er dagleg yfirstjórn á auk þess sem hann ber ábyrgð á rekstri, þjónustu og stjórnsýslu sviðsins.
Ein af megináherslum sviðsins næstu fimm árin er innleiðing nýrrar velferðarstefnu Reykjavíkurborgar en einkunnarorð hennar eru Reykjavík – fyrir okkur öll. Stafræn umbreyting á þjónustu, innleiðing laga um farsæld barna og aukið samráð við hagsmunaaðila eru á meðal fjölmargra verkefna í aðgerðaráætlun velferðarstefnunnar. Á sviðinu starfa 3000 manns sem veita þjónustu á yfir 100 starfseiningum.
Bæjarstjóri Akureyrarbæjar í átta ár
Eiríkur Björn Björnsson er með B.Ed. íþróttakennarapróf sem framhalds- og grunnskólakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugavatni. Hann er með diplóma í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands, diplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands og hefur einnig lokið öllum áföngum til meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Eiríkur starfaði sem æskulýðs- og íþróttafulltrú Egilstaðabæjar í tvö ár og deildarstjóri íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar í sex ár. Hann var bæjarstjóri Austur-Héraðs í tvö ár sem sameinaðist Fljótsdalshéraði og gegndi hann stöðu bæjarstjóra þar í sex ár. Þá tók hann við stöðu bæjarstjóra Akureyrarbæjar, sem hann gegndi í átta ár. Undanfarin þrjú ár hefur hann starfað sem sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.
Menningar-, íþrótta- og tómstundasvið er nýtt sameiginlegt svið innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar sem er í undirbúningi en borgarráð hefur samþykkt að sameina menningar- og ferðamálasvið og íþrótta- og tómstundasvið í eitt svið. Fyrirhugað er að nýtt sameiginlegt svið beri ábyrgð á skipulagi, rekstri og þjónustu menningarstofnana, íþróttamannvirkja, hátíða og margvíslegum stuðningi og samstarfi við menningar-, íþrótta- og tómstundalífið.
Á nýju sameinuðu sviði verða starfsmenn tæplega 850 talsins.
Hlutverk sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar er dagleg yfirstjórn á auk þess sem hann ber ábyrgð á rekstri, þjónustu og stjórnsýslu sviðsins.
Á sama tíma og Rannveigu og Eiríki Birni er óskað farsældar í starfi er öðrum umsækjendum þakkaður sýndur áhugi og óskað velfarnaðar.